135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

skipun ferðamálastjóra.

[13:49]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég endurtek það sem ég sagði hérna áðan. Ég er sammála hv. þingmanni um að það færi ekki illa á því að þessari tilteknu stöðu væri gegnt frá höfuðstað Norðurlands, ekki bara vegna þess að þar eru mikil og vaxandi umsvif í ferðaþjónustu heldur vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að í mörgum tilvikum, t.d. þessu, færi vel á því að yfirstjórn stofnana, ekki síst þeirra sem hafa stórar starfsstöðvar úti á landi, sé þar líka.

Hv. þingmaður orðar það með þeim hætti að ráðherra sé að skjóta sér undan. Það er alveg ljóst að ráðherra ber ábyrgð á því sem ráðuneytið gerir í hans nafni og ég er ekki að skjóta mér undan því. Ég hef lýst því skýrt yfir að þetta tiltekna atriði hafði ekki áhrif á ákvörðun mína vegna þess að ég vissi ekki af þessu. Ég vissi ekki af því að þetta hefði gerst. Ég varð þess ekki áskynja fyrr en ég fékk þessi boð að norðan.

Hv. þingmaður spyr síðan hvort ekki sé rétt að ráðherra taki á þessu. Ráðherrann hefur tekið á þessu með viðeigandi hætti. (Forseti hringir.)