135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

Reykjavíkurflugvöllur.

[14:00]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. þingmaður á að vita það, bæði af fyrri ummælum mínum og skrifum mínum, að mér er ekkert sérstakt kappsmál að vera sammála ríkjandi meiri hluta í Reykjavíkurborg. Það hefur komið fram að meiri hlutinn, sem hefur verið samansettur af 6/7 sömu aðila og eru núna, hefur satt að segja angrað mig töluvert og farið töluvert í taugarnar á mér. Ég hef ekki farið dult með þær skoðanir mínar. Hitt er það að ég óska nýjum meiri hluta, hver sem hann er, velfarnaðar í starfi. Ég mun hins vegar ekki láta af hugsanlegri andstöðu minni við ýmislegt sem ég er ekki sammála hjá þeim meiri hluta. Ég tel að það sé hlutverk okkar allra að hafa sjálfstæðar skoðanir.

Hv. þingmaður spyr um afstöðu mína til flugvallar í Vatnsmýri. Ég tel að það sé bitamunur en ekki fjár hvort flugvöllurinn sé í Vatnsmýrinni eða t.d. á Hólmsheiðinni. Hv. þingmaður var til skamms tíma í stjórnmálaflokki sem barðist fyrir því og lagði allt í sölurnar til þess að flugvöllurinn yrði fluttur nokkur hundruð metra út í Skerjafjörðinn. Ég man ekki betur en hv. þingmaður hafi þá verið á því pólitíska skeiði að hann styddi það allt saman með höfuðhneigingum og mikilli lotningu. Nú er það þannig að þeir sem börðust fyrir því hafa hopað á hæli, hv. þingmaður sömuleiðis og er kominn í annan flokk en það gleður mig alla vega að hann hefur staðfestu til að fylgja fyrri sannfæringu sinni.

Ég hef alltaf sagt að ég telji að flugvöllurinn eigi helst að vera í Reykjavík. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það séu möguleikar á því að hafa hann í Reykjavík án þess endilega að hafa hann í Vatnsmýrinni. Það er það sem við eigum að skoða, ég og hv. þingmaður og líka sá nýi meiri hluti í Reykjavík sem hv. þingmaður greinilega elskar út af lífinu. Það er kannski það eina sem okkur greinir á í þessari umræðu.