135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

Reykjavíkurflugvöllur.

[14:02]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hugmyndin um Löngusker var skammlíf bóla, hugmynd eins manns sem nú er hættur í stjórnmálum. Afstaða mín hefur um langt skeið verið sú sem hún er enn í dag, að flugvöllurinn eigi að vera í Vatnsmýrinni þar sem hann er.

Það sem er mikilvægast fyrir landsbyggðarmenn er að reist verði ný samgöngumiðstöð við þennan flugvöll. Menn þurfa að hafa í huga að það fara fleiri farþegar um þennan flugvöll í dag en fóru um Flugstöð Leifs Eiríkssonar þegar hún var tekin í notkun árið 1987. Halda menn að fólk léti bjóða sér þær aðstæður sem eru við þessa flugstöð ef þar ætti að vera millilandaflug? Þetta er ekki hægt, virðulegi forseti, og ég skora á hæstv. iðnaðarráðherra að vinna að því með okkur og fleirum að tryggja það að samgöngumiðstöðin rísi fljótt og vel í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Það er greinilega mikill meðbyr með málinu meðal Reykvíkinga um þessar mundir.