135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

málaskrá ríkisstjórnarinnar.

[14:06]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður skuli sakna góðra mála frá ríkisstjórninni en hún veit að sjálfsögðu af langri reynslu í ríkisstjórn að listi sá sem fylgir stefnuræðu forsætisráðherra er alls ekki bindandi. Hann er eingöngu vísbending um það sem ríkisstjórnin hefur í huga að beita sér fyrir á kjörtímabilinu eða réttara sagt á yfirstandandi þingi. Stundum hefur það brunnið við að listinn yfir frumvörp er býsna almenns eðlis, það er t.d. talað um frumvörp um tekjuskatt án þess að láta þess sérstaklega getið hverju þar eigi að breyta. Þetta er meira til vísbendingar en að fullákveðið sé hvort og þá nákvæmlega hvernig og í hvaða búningi frumvörp sem á þessum lista eru verða flutt.

Ég lít hins vegar á þessa fyrirspurn þingmannsins sem áskorun til ríkisstjórnarinnar um að gera betur og herða sig í að flytja góð mál og ég mun að sjálfsögðu taka það upp á réttum vettvangi og ræða það við ráðherrana í ríkisstjórninni. Hins vegar hefur ekki verið hörgull á málum til að vinna úr á Alþingi enn sem komið er og vonandi verður það ekki en vissulega er ríkisstjórnin með ýmislegt í pípunum og pokahorninu sem ekki er komið fram og við munum að sjálfsögðu reyna að nota tímann eins vel og hægt er fram á vorið.