135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

uppsagnir í fiskvinnslu og atvinnuöryggi í sjávarbyggðum.

[14:15]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þær uppsagnir sem hafa orðið í fiskvinnslunni eru vitaskuld grafalvarlegar. Hvernig sem á málin er litið eru það auðvitað slæm tíðindi þegar uppsagnir verða og fólk missir vinnu sína. Í umræðunni hafa þessar uppsagnir nær eingöngu verið raktar til ákvörðunarinnar um að draga úr þorskveiðinni á yfirstandandi fiskveiðiári um rúmlega 60 þús. tonn. Vissulega hlaut sú ákvörðun að hafa áhrif á atvinnustigið í sjávarútveginum.

Það að kvótinn er nú minni en sem nemur 60 þús. tonnum af þorski hefur vitaskuld áhrif og það blasti við öllum. Það var af þeim ástæðum sem ríkisstjórnin ákvað jafnframt að undirbúa aðgerðir til að vega upp á móti þeim atvinnumissi sem yrði fyrirsjáanlega vegna samdráttar í þorskafla. Vitaskuld var ljóst að sú atvinnusköpun yrði ekki í sjávarútveginum. Markmiðið var þess vegna að freista þess að stuðla að annarri atvinnusköpun sem einkanlega kæmi að gagni á þeim svæðum sem yrðu fyrir mestu tekjutapi vegna samdráttar í þorskafla.

Markmiðið var enn fremur að styrkja sjávarbyggðirnar með ýmsum hætti, svo sem með því að flýta uppbyggingu í samgöngum og fjarskiptum í samræmi við fyrirliggjandi samgöngu- og fjarskiptaáætlanir. Eðli málsins samkvæmt tekur nokkurn tíma að þessar aðgerðir skili sér með beinum hætti. Útboð eru í gangi núna á ýmsum verklegum sviðum sem kalla á fólk til starfa þegar þær framkvæmdir fara af stað.

Alþingi ákvað að aflétta kostnaði af sjávarútveginum með verulegri lækkun veiðigjalds og sömuleiðis var ákveðið að skapa Atvinnuleysistryggingasjóði aukið svigrúm svo ekki þyrfti að koma til uppsagna. Þá var Byggðastofnun skapað svigrúm til þess að taka á með fyrirtækjunum.

Nú í ársbyrjun er myndin orðið mun skýrari en hún var á haustdögum þegar þessi mál voru til umfjöllunar og hún mun enn skýrast á næstu vikum og mánuðum. Það er ljóst að enn á eftir að taka ákvarðanir um útfærslu ýmissa þeirra. Það er því eðlilegt að farið sé yfir þessi mál í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi, m.a. með það í huga að beina aðgerðunum inn á þau svæði þar sem þörfin er brýnust.

Margar ýkjukenndar og mjög misvísandi fréttir hafa verið sagðar af þeim uppsögnum sem þegar hafa átt sér stað. Ég ætla ekki á nokkurn hátt að gera lítið úr þessum uppsögnum en til þess að fá sem raunsannasta mynd þarf að hafa ýmislegt í huga. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum getað aflað okkur í sjávarútvegsráðuneytinu virðast uppsagnir í bolfisksvinnslu núna ná til um 300 starfsmanna þótt þær séu alls ekki allar varanlegar. Í því sambandi vil ég vekja athygli á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi er ljóst að margar þeirra uppsagna sem rætt hefur verið um hafa ekki komið til framkvæmda og munu ekki koma til framkvæmda fyrr en síðar á árinu. Er það í rauninni í samræmi við það sem flestir álitu þegar ákvörðun var tekin um minnkandi aflaheimildir í þorski.

Í annan stað verða menn að hafa í huga að ýmsar þessara uppsagna eru tímabundnar og þess vegna ekki varanlegar. Gleymum því ekki að það hefur verið mjög algengt í fiskvinnslunni undanfarin ár að fiskvinnsla liggi niðri um tímabundið skeið yfir sumartímann. Þær breytingar sem hafa verið gerðar á reglum og lögum Atvinnuleysistryggingasjóðs gera slíkar ráðstafanir auðveldari.

Í þriðja lagi eru dæmi um að önnur sjávarútvegsfyrirtæki á sama atvinnusvæði hafi ráðið það fólk til starfa sem hefur misst vinnu sína vegna uppsagna. Þá eru dæmi um að ný fyrirtæki hafi risið á grunni þeirra sem hafa hætt starfsemi af ýmsum ástæðum, t.d. vegna gjaldþrots.

Í fjórða lagi er að nefna að sums staðar þar sem uppsagnir hafa átt sér stað í fiskvinnslu er til staðar umframeftirspurn eftir vinnuafli sem hefur getað ráðið við að ráða það fólk til annarra starfa.

Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að minna á að uppsagnir í sjávarútvegi eru því miður ekki nýtt fyrirbæri og dæmi um slíkt fjölmörg áður en kom til ákvörðunar um minnkun þorskafla. Ég hef undir höndum tölur frá Hagstofu Íslands sem sýna þetta vel. Ef við skoðum tímabilið 1998–2005, en það eru nýjustu tölur sem Hagstofan hefur til reiðu, kemur í ljós að störfum í fiskveiðum hefur fækkað um tæplega 2.300 og í fiskvinnslu um 1.600. Þetta eru tæplega 4.000 manns á þessu tímabili. Hér eru á ferðinni skipulagsbreytingar sem einkanlega stafa af stóraukinni tæknivæðingu sem leiðir til færri starfa í atvinnugreininni. Hins vegar er athyglisvert að heildarlaun í fiskvinnslu hafa hækkað á þessu tímabili þótt þau hafi dregist saman í fiskveiðum, þó að það sé afar misjafnt eftir landshlutum.

Einnig er athyglisvert að sjá hversu menn hafa breytt sóknarmunstri skipanna vegna samdráttarins. Margir höfðu uppi miklar hrakspár þegar ákvörðun um 130 þús. tonna þorskafla var tekin og ýsuaflinn ákvarðaður um 100 þús. tonn. Margir sögðu að þetta mundi þýða að ýsuaflinn næðist ekki heldur. Nú er hins vegar búið að veiða 37% af aflamarki ýsu og 33% af aflamarki í þorski. Yfirgnæfandi líkur virðast á því að aflamark í ýsu verði veitt upp í ár. Þarna kemur ýmislegt til, en ég minni á að í samráði við skipstjórnarmenn var ákvörðun tekin um að opna hólf til ýsuveiða og er sýnilegt að sú ákvörðun hefur ásamt öðrum skilað árangri.

Það er ljóst, virðulegi forseti, að hluta þeirrar ákvörðunar sem ég hef rætt hér um má rekja til minni aflaheimilda í þorski en það er alls ekki einhlítt. Þarna koma fleiri þættir til, m.a. annars almennar hagræðingaraðgerðir rétt eins og við höfum séð gerast á undangengnum árum. Samkvæmt opinberum tölum fækkaði starfsfólki í fiskvinnslu um 800 manns á milli (Forseti hringir.) áranna 1998 og 1999 og tæplega 600 milli 1999 og 2000. Sú fækkun verður a.m.k. ekki rakin til ákvörðunar um minnkun þorksafla á árinu 2007.