135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

uppsagnir í fiskvinnslu og atvinnuöryggi í sjávarbyggðum.

[14:23]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er erfitt þessa dagana fyrir þingmann sem vill kalla sig landsbyggðarþingmann að horfa upp á þróun sem hér á sér stað, ekki hvað síst þar sem ég er stuðningsmaður ríkisstjórnar sem hefur sett sér það markmið að efla landsbyggðina og bæta stöðu hennar gagnvart höfuðborginni.

Við vissum það þegar ákveðið var að skera þorskkvótann niður um 30% að því mundu fylgja erfiðleikar í framhaldinu og að mæta þyrfti niðurskurðinum með ýmsum hætti. Því miður virðist það hafa gerst að sum fyrirtæki hafa gripið tækifærið og brugðist við með alvarlegri hætti en búast hefði mátt við og uppsagnir komið fyrr og harkalegri en ég hafði reiknað með. Þar virðist manni oft gilda sjónarmiðið að hagræðingin sé til að gæta hluthafanna fremur en fiskvinnslufólksins og þá einkum þeirra kvenna sem vinna í fiskvinnslunni. Að gætt sé frekar að hag hluthafanna en að tekið sé tillit til byggðasjónarmiða eða reynt að þreyja þorrann þau ár sem kvótaniðurskurðurinn stendur yfir. Um þetta snýst umræðan í augnablikinu.

Við áttum auðvitað von á niðurskurði en ekki með þeim hætti sem þetta ber að. Við höfum horft upp á það að sum fyrirtækin ganga fram, jafnvel með kæru á bakinu, í að segja fólki upp og það hefur leitt til þess að í umræðum, m.a. á fundi í gærkvöldi, hafa þingmenn nánast allra flokka sett fram spurningu um það hvort ekki sé ástæða til að breyta kvótakerfinu og grípa inn í. Kannski með líkum hætti og ég vakti athygli á í þinginu í síðustu viku þegar ég benti á að þau fyrirtæki sem fara svona fram hljóti að verða gjalda þess þegar kvóti verður aukinn að nýju, ef þau ætla ekki að taka samfélagslega ábyrgð og stuðla að því að reyna að halda fólki í vinnu og byggðinni á meðan við þreyjum (Forseti hringir.) þorrann vegna niðurskurðarins.