135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

uppsagnir í fiskvinnslu og atvinnuöryggi í sjávarbyggðum.

[14:25]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Gagnvart sjómönnum, fiskverkafólki og sjávarútveginum hafa ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn hagað sér eins og þorskar á þurru landi. Þeir hafa hvorki heyrt bænir byggðanna né tekið tillit til þess sem fólkið sagði. Þeim mun sorglegra er þetta að hæstv. sjávarútvegsráðherra er náttúrubarn úr sjávarbyggð og átti að geta komið vitinu fyrir heila ríkisstjórn.

Við framsóknarmenn vöruðum ríkisstjórnina við að skera svo djúpt og það gerðu margir aðrir aðilar í þjóðfélaginu. Með því að fara upp í 150–160 þús. tonn er jafnlíklegt að hægt sé að byggja upp þorskstofninn en það hefði ekki orðið eins sárt fyrir byggðirnar. Þær hefðu staðið það af sér.

Við sögðum fyrir í sumar og margir fleiri hvað mundi gerast. Þá var hlegið að okkur og okkur mótmælt. Nú stendur hæstv. sjávarútvegsráðherra frammi fyrir því. Ég sagði hér í vikunni: Enginn hefur bannað neinum manni að vera vitrari í dag en hann var í gær. Ég spyr því hæstv. sjávarútvegsráðherra af einlægni: Kemur til greina að hann slaki til við núverandi aðstæður, verði vitrari og gefi út veiðiheimildir í þorski upp á 20 þús. tonn til að koma til móts við byggðirnar og draga úr þessu mikla áfalli? Það mundi hafa verulega viðhorfsbreytingu og áhrif í för með sér.

Um mótvægisaðgerðirnar þarf ég ekki að ræða. Teknar voru ákvarðanir um þær 11. september síðastliðinn, sem er ljótur dagur í heimssögunni, þó að þeir hafi ekki tilkynnt þær fyrr en 12. september. Þær aðgerðir eru háðung og grín, þær koma hvergi nálægt sjávarbyggðunum og hafa valdið vonbrigðum.

Við framsóknarmenn gerðum tillögur um mótvægisaðgerðir til að hjálpa ríkisstjórninni, beinar aðgerðir til stuðnings sjómönnum og launafólki, beinar aðgerðir (Forseti hringir.) til stuðnings sveitarfélögum, beinar aðgerðir til stuðnings útgerðinni og að rannsóknir í sjávarútveginum, í sjónum, yrðu (Forseti hringir.) efldar til muna. Ekkert af þessu var gert. Ég harma þessa stöðu og hvet hæstv. sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnina til að endurskoða sínar vitlausu ákvarðanir. (Gripið fram í: Hvað varð um Framsóknarflokkinn?)