135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

uppsagnir í fiskvinnslu og atvinnuöryggi í sjávarbyggðum.

[14:35]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Auðvitað er full þörf nú eins og oft áður á að ræða stöðuna í sjávarútvegi, ræða uppsagnir í fiskvinnslu og atvinnuöryggi í sjávarbyggðum. Ástandið eins og það nú hefur verið allt of lengi þannig, því miður. Á köflum er hins vegar afar sérkennilegt að hlusta á umræður margra hv. þingmanna um hlutverk sjávarútvegs. Það er líkt og hv. þingmenn telji að sjávarútvegurinn einn og sér eigi að sjá um að allar byggðir í landinu haldi sinni stöðu og eflist. Það er auðvitað gamall hugsunarháttur. Hann er horfinn frá flestöllum Íslendingum og ég hélt að hann væri líka horfinn héðan úr þingsölum (Gripið fram í.) vegna þess að við vitum hver nútíminn er og við vitum hvert við stefnum í framtíðinni. Við vitum að sjávarútvegurinn hefur verið að breytast jafnt og þétt. Hann hefur verið að tæknivæðast, þurft hefur færra fólk til þess að sinna (Gripið fram í.) þeim störfum sem þar eru og hann hefur náð að skila meiri verðmætum með færra fólki en áður var.

Það sem hins vegar er vandamálið og jafnframt umhugsunarefni, sérstaklega fyrir ýmsa þingmenn sem setið hafa í ríkisstjórn mismunandi lengi, er að því miður bregðumst við of seint við. Það sem nú er að gerast, (Gripið fram í.) það sem hefur verið að gerast hefur blasað við mjög lengi. Segja má að um leið og við tókum upp það fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum í dag hafi það blasað við hvert við stefndum og þess vegna hefði átt að bregðast við með svipuðum hætti og nú er skráð í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Ég get viðurkennt að ýmislegt er þar því miður heldur seint á ferðinni og miklu betra ástand væri mjög víða um landið ef gripið hefði verið til slíkra aðgerða miklu fyrr. Það eru nefnilega aðgerðir sem ekki skila árangri strax í dag. Ég er þó sannfærður um að þær muni skila miklu meiri árangri en þær plástursaðferðir sem of lengi hafa verið notaðar og sumir vilja kenna við Framsóknarflokkinn en það er ekki verðskuldað.