135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

matvæli.

326. mál
[14:48]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af því síðara atriði sem hv. þingmaður nefndi, þá er það þannig að eins og hv. þingmaður veit var lagabreyting sem tók gildi núna um áramótin sem fól það í sér að við erum einmitt að einfalda þetta eftirlitskerfi til mikilla muna. Það er verið að færa saman eftirlitið á einn stað undir nýrri stofnun, Matvælastofnun, skammstafað MAST. Áður fór þetta eftirlit fram á þremur stöðvum, þ.e. í Umhverfisstofnun, Fiskistofu og Landbúnaðarstofnun. Nú er þetta sem sagt komið undir þessa einu nýju stofnun þannig að ég hygg að þetta mál verði allt miklu einfaldara. Það var eins og hv. þingmaður veit og man hins vegar gert ráð fyrir því að við því fyrirkomulagi sem snýr að sveitarfélögum, heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga, yrði ekki hróflað. Það er alveg rétt að það gæti hugsanlega skapað einhverja árekstra en ég hygg að þeir verði teljandi á fingrum annarrar handar og ég hef ekki miklar áhyggjur út af því. Ég held að það gæti orðið gott samstarf milli eftirlits sveitarfélaga og annarra aðila.

Varðandi matvælalöggjöfina almennt eins og hv. þingmaður var að tala um þá er þess að vænta að innan tíðar komi nýtt frumvarp sem felur í sér frumvarp um nýja matvælalöggjöf sem byggir á tilskipunum Evrópusambandsins þar sem m.a. er tekið á þeim hlutum sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni. Ég er hins vegar alveg sammála honum um að það skiptir máli fyrir okkur sem erum matvælaframleiðendur að allar reglur um uppruna séu sem skýrastar. Við Íslendingar höfum ekkert að fela í þeim efnum, erum góð matvælaframleiðsluþjóð og það er styrkur fyrir okkur og ávinningur fyrir okkur að allar reglur um uppruna og rekjanleika séu sem skýrastar. Þannig getum við sýnt hvar umrædd vara á uppruna sinn og í því felst mikill styrkur fyrir okkar góðu matvælaframleiðslu.