135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

efling íslenska geitfjárstofnsins.

312. mál
[15:05]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Þessi tillaga til þingsályktunar er flutt af þingmönnum úr öllum þingflokkum og að mínu mati er afar brýnt að hún verði afgreidd sem allra fyrst, enda stendur þessi búskapur mjög höllum fæti. Það væri afar miður og eiginlega stórslys ef hann legðist af. Þetta er mál sem lætur lítið yfir sér en er að mínu mati stórmerkilegt og varðar ákveðin grundvallaratriði í búskap á Íslandi. Varðar fjölbreytni flórunnar og þar fram eftir götunum, eins og hv. þm. Bjarni Harðarson lýsti svo ágætlega í ræðu sinni. Ég þykist vita og treysti því að hæstv. landbúnaðarráðherra veiti þessu málefni kröftugt lið og geri það strax. Bíði jafnvel ekki eftir því að þingsályktunartillagan verði samþykkt heldur grípi strax inn í. Hann gæti beitt sér fyrir ákveðnum aðgerðum þó að þingsályktunartillagan verði ekki samþykkt fyrr en síðar í vetur.

Það er aðalatriði þessa máls, eins og fram kemur í greinargerðinni, að geitfjárstofninn er einstakur í sinni röð. Stofninn er sá hinn sami frá landnámsöld og blöndun við aðra stofna er engin. Heldur hefur hallað undan fæti í þessum búskap síðustu ár — ég held að um 400 vetrarfóðraðar geitur séu hér á landi — og halda má því fram með fullum rökum að stofninn sé í útýmingarhættu. Það hefur staðið í vegi fyrir þessum búskap að ekki hefur fengist leyfi yfirdýralæknis til að flytja geitur á ný svæði sökum varnarlína. Í því sambandi má nefna slys sem varð í Skagafirði þar sem heill geitastofn, sem bundinn var við það landsvæði, var felldur án þess að tryggt væri að hann lifði áfram. Ekki voru teknar úr honum geitur til einangrunar á sóttvarnarstöð og til áframhaldandi ræktunar.

Ótrúlega margir eru áhugasamir um þessa geitarækt, bæði sem hliðarbúgrein og annað, en eins og fram hefur komið er bannað að flytja geiturnar á milli svæða og jafnvel innan svæða. Ég vek sérstaka athygli á gagnsemi þessarar ræktunar fyrir ferðaþjónustuna í landinu. Framleiðsla af þessu tagi skapar fjölbreytni í ferðaþjónustu, ferðamenn sem nýta sér þjónustu þeirra búa þar sem geitur eru ræktaðar geta keypt afurðir þar. Geitfjárstofninn stendur veikt og augljóst að við þurfum að fylgja því sem lagt er til í þingsályktunartillögunni, að styrkja bændur sem vilja vinna þessar afurðir, gera erfðarannsóknir á stofninum og fjölga stofnum með því að hækka greiðslur til búskaparins.

Ég vil nefna í þessu samhengi eitt dæmi sem hv. þm. Bjarni Harðarson kom að varðandi búið á Háafelli í Hvítársíðu í Borgarfirði. Það er eitt stærsta geitabú landsins og hefur verið starfrækt í tíu ár. Þar er að finna, að ég hygg, einu kollóttu geiturnar á landinu. Þannig að sá stofn hefur sérstöðu innan sérstakt stofns. Mörg dæmi eru um að þaðan hefur verið seld mjólk til foreldra ungbarna sem hafa haft óþol fyrir brjóstamjólk mæðra sinna. Dæmi er um að barn með langvarandi óþol fyrir brjóstamjólk hafi á einum eða tveimur sólarhringum lagast af þeirri magakveisu sem því fylgdi með því að neyta geitamjólkur í einn sólarhring. Óþolið hvarf og barninu leið betur. Hið sama á við um fólk sem hefur óþol fyrir ýmiss konar mat, geitakjötið virðist henta því fólki afar vel, það veldur ekki óþoli. Þessar afurðir eru í raun og sanni ótrúlegt heilsufæði sem við mættum nota miklu meira af.

Að óbreyttu stefnir því miður í að búið að Háafelli á Hvítársíðu verði lagt niður. Ákveðin hætta blasir þar við vegna fjárhagserfiðleika. Ég vil halda því til haga að búið fékk sérstakan styrk frá landbúnaðarráðuneytinu í ráðherratíð hæstv. ráðherra Guðna Ágústssonar. Sá styrkur hefur einhvern veginn fallið milli skips og bryggju. Ég beini því til hæstv. landbúnaðarráðherra að taka þegar í stað upp styrkveitingu til búsins þannig að koma megi í veg fyrir að bóndinn, eða konan sem rekur geitabúið, gefist upp. Hún hefur haldið þessu búi á floti af hreinni hugsjón í tíu ár en oft þrýtur erindið í hugsjónastarfseminni ef skilningur stjórnvalda er ekki fyrir hendi, sérstaklega eftir langan rekstur.

Ég vek líka athygli á því að í Borgarfirði er ekki um að ræða riðusvæði en þar hefur garnaveiki komið upp. Ef selja á stofninn frá þessu búi til framleiðslu og ræktunar á öðrum búum er ekkert mál að setja geitur í einangrun og ganga úr skugga um hvort garnaveiki er til staðar eða ekki. Möguleikarnir í geitabúskap eru óendanlegir og sérstaklega ef hann er tengdur ferðaþjónustu og sölu á afurðum beint frá búi til neytenda og ferðamanna sem gista bændur.

Ég skora á hæstv. landbúnaðarráðherra að veita þessum búskap í kjördæmi sínu, á Háafelli í Hvítársíðu í Borgarfirði, sérstaka athygli og leita ráða til að koma til móts við bóndann þar til að búskapurinn geti blómgast.