135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

efling íslenska geitfjárstofnsins.

312. mál
[15:13]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það má vera að mörgum þyki lítt merkilegt að ræða hér sérstaklega um stöðu íslenska geitastofnsins en hér hefur verið farið mörgum orðum um mikilvægi hans og mikilvægi þess að viðhalda honum. Staða stofnsins er klárlega áhyggjuefni út frá sögulegu gildi hans og nauðsynlegt er að grípa til úrræða þannig að ekki fjari enn frekar undan þessari starfsemi. En málið er hluti af miklu stærra máli sem tengist framtíð í hefðbundnum íslenskum landbúnaði og byggðaþróun. Íslenskur landbúnaður hefur verið ein af undirstöðum byggðar í landinu. Þróun í hefðbundnum landbúnaði á sennilega ekki minni þátt í þeirri byggðaþróun sem við höfum búið við á undanförnum árum og áratugum en mikil tæknibylting í sjávarútvegi.

Málefni íslenska geitastofnsins er hluti af byggðaþróun sem við viljum snúa við. Nú er staðan þannig að búum er að fækka um leið og þau eru að stækka. Að mörgu leyti er það eðlileg hagræðing sem nauðsynleg er í íslenskum landbúnaði. Þeir sem stunda kúabúskap hafa komist ágætlega frá rekstri sínum, afkoma hefur verið þokkaleg. Öðru gildir um sauðfjárbúskap svo ekki sé minnst á þá fáu hugsjónamenn sem stunda hér enn geitabúskap. Í þeim búgreinum hefur um langt skeið ekki verið viðunandi afkoma og lítill möguleiki á því eins og aðstæður eru að auka eða bæta þá afkomu nema til komi tekjur af hlunnindum eða annarri vinnu sem heimilisfólk stundar jafnframt bústörfum. Þeim tækifærum hefur reyndar einnig fækkað mikið, m.a. vegna fækkunar sláturhúsa. Þess má geta að í dag er ekkert almennt sláturhús starfandi á svæðinu frá Selfossi og vestur um til Hvammstanga. Þá hefur fólksfækkun í sveitum landsins leitt af sér minni umsvif verslunar og þjónustu víðast hvar á landsbyggðinni.

Ég held að við séum öll sammála um að við viljum snúa þessari þróun við. Ég þarf ekki að bæta miklu við góðan málflutning þeirra ræðumanna sem talað hafa á undan mér um geitfjárstofninn, góð rök hafa verið færð fyrir því að viðhalda honum og koma þeim til hjálpar sem stunda þann búskap. Ég ætla að leiða hugann að því sem er kannski mergurinn málsins í þessu öllu: Við viljum snúa byggðaþróuninni við. En hvað er til ráða? Ég er á þeirri skoðun að flest okkar séu sátt við víðtækan stuðning við íslenskan landbúnað. Eflaust höfum við mismunandi forsendur fyrir þeirri skoðun okkar. Í því sambandi geri ég mikinn greinarmun á því sem við köllum hefðbundinn landbúnað og framleiðslu á svokölluðu hvítu kjöti sem hefur að mínu mati lítið með byggðaþróun að gera.

Við verðum að standa vörð um sögulegt gildi undirstöðuatvinnugreina okkar. Við verðum að horfa til mikilvægis þess að vera sjálfbær í framleiðslu á matvælum og við verðum, og það er einna mikilvægast í þessu sambandi, að viðhalda byggð um landið allt. Til að svo megi vera verðum við með einhverjum ráðum að auka möguleika þeirra er stunda hefðbundinn búskap til að auka tekjur heimilanna. Ég sé ekki aðra leið en að auka möguleika þeirra til frekari vinnslu á afurðum sínum. Með þeim hætti munum við sjá aukna grósku og metnað hjá þeim sem starfa í þessari grein. Í dag stunda hefðbundinn sauðfjárbúskap þeir sem gera það af hreinni hugsjón og hafa tækifæri, eru kannski ekki skuldmiklir, til að nýta afurðir sínar til heimilisins og eru forsjálir í því að haga lífi sínu þannig að það falli að þessum rekstri og þeir geti lifað af honum. Hins vegar eru það þeir sem eru að stækka búin og vilja á þeim grunni, með aukinni hagræðingu og stækkun búa, reyna að ná fram betri afkomu. Ég held að þetta geti allt farið saman. En við þurfum að auka möguleika meðalstórra og jafnvel smærri búa til að viðhalda byggðinni.

Víða í Evrópu hefur sú þróun átt sér stað að lítil sláturhús og í tengslum við þau litlar afurðavinnslur hafa skotið rótum. Í ferð sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar um landið í haust fundum við virkilega fyrir auknum áhuga bænda á þeim möguleikum. Við fundum sérstaklega fyrir þessum áhuga á þeim svæðum þar sem hefðbundinn landbúnaður á undir högg að sækja og atvinnutækifæri og önnur tækifæri til þess að afla sér lífsviðurværis eru takmörkuð. Mig langar sérstaklega að nefna hér þá feðga á Möðrudal sem reka litla kjötvinnslu þar sem þeir m.a. reykja og vinna enn frekar afurðir sínar, m.a. að einhverju leyti geitakjöt. Við fengum að bragða á ágætis reyktu geitakjöti. Afkoma þeirra er ágæt og þær tölur sem þeir fóru með fyrir okkur um framlegð af kílóaverði voru sláandi. Þessi litla vinnsla er rekin samkvæmt þeim kröfum sem gerðar eru. En til að geta unnið kjötið heima þurfa þeir að flytja sláturfé um langan veg og síðan skrokkana heim aftur.

Með breytingum sem gera bændum kleift að auka tekjur heimilanna með því svigrúmi sem þeir þurfa til þess munum við sjá mikla aukningu í vöruúrvali. Ýmislegt bendir líka til þess að við munum sjá betri meðferð á sláturskepnum og þar með oft betri afurðir. Það er t.d. viðurkennt að kjötgallar geta verið í sláturfé af völdum streitu. Orsaka þess er m.a. að leita í löngum flutningum ásamt svelti og ónógri hvíld því fylgjandi. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig það er að flytja sláturfé frá Snæfellsnesi austur á Selfoss, hvers konar meðferð það er á skepnum og hvort við náum með því hámarksgæðum á þeim afurðum sem eru síðan boðnar.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði er þessi umræða um geitastofninn ekki eingöngu bundin við sögulegt gildi hans og mikilvægi þess vegna. Þar er ekki síður um að ræða breytingar sem við verðum að þróa í hefðbundnum íslenskum búskap. Mig langar að vitna í viðtal við Jóhönnu Þorvaldsdóttur, frá Háafelli á Hvítársíðu, í Bændablaðinu fyrir nokkru. Hún segir, með leyfi forseta:

„Ég verð aldrei rík af því að vera með þessar geitur. En það er ekki hægt að láta stofninn deyja út þótt ekki væri af annarri ástæðu en þeirri að afurðirnar eru ómetanlegar. Til eru óteljandi sögur um börn sem lifðu á geitamjólk og kjöti, sem aldrei varð misdægurt. Þetta sama fólk hélt eigin tönnum fram á elliár enda eru til rannsóknir, t.d. frá Noregi, sem staðfesta að geitamjólkin hefur verndandi áhrif á tennur. Rannsókn frá Nýja-Sjálandi segir okkur líka að geitamjólk hefur græðandi áhrif á sár í meltingarfærum.“

Rætt hefur verið um lækningamátt þessara afurða. Það mun klárlega getað skapað tækifæri fyrir þá sem stunda þennan búskap í framtíðinni, að búa til afurðir sem þeir geta markaðssett á þeim forsendum. Jóhanna á kannski ekki endilega eftir að verða rík af því að vera geitabóndi en hver veit nema hún eigi eftir að hafa sæmilegt lífsviðurværi af því að framleiða þessar afurðir. Til þess þurfum við að skapa henni og öðrum tækifæri til að gera það heima og auk þar með tekjur heimilis síns. Hver veit, virðulegi forseti, nema styrkir framtíðarinnar í landbúnaði beinist þá að því að hjálpa fólki til markaðssetningar á þeim afurðum sem það framleiðir.