135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

efling íslenska geitfjárstofnsins.

312. mál
[15:28]
Hlusta

Flm. (Bjarni Harðarson) (F):

Frú forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið. Ég má til með að þakka fyrir þá góðu umræðu sem farið hefur fram. Eins og komið hefur fram í umræðunum er þetta mál þverpólitískt. Ég vil halda því til haga, þótt ekki hafi fulltrúar allra flokka talað um málið. Mín aðkoma að þessu máli er sú að ég er meðflutningsmaður og ég reiknaði ekki með að það félli í minn hlut að flytja málið. En svo fór með nokkuð litlum fyrirvara. Ég hef orðið þess áskynja að áhuginn á þessu máli er mikill innan allra flokka. Hér vildi vera með okkur í dag hv. þm. Karl V. Matthíasson, sem er einn flutningsmanna, sem er forfallaður en hann er mikill áhugamaður um þetta.

Það sem mig langar sérstaklega til að þakka fyrir í þessari umræðu eru orð hv. þm. Jóns Gunnarssonar um samhengi þessa búskapar og byggðaþróunarinnar. Ég get tekið undir hvert orð sem þar féll. Ég hef sjálfur verið mjög gagnrýninn á þá þróun lengi hvernig við höfum fækkað sláturhúsum í landinu. Ég hygg að þótt langt sé frá Selfossi á Hvammstanga, milli sláturhúsa, sé í raun lengra að fara til austurs í sláturhús. Fé er í dag flutt með bílum yfir hálft landið og jafnvel lengra til slátrunar. Það er ekki góð þróun í íslenskum landbúnaði og er okkur til vansa út frá dýraverndunarsjónarmiðum. Þar höfum við um of hlaupið eftir ímynduðum hagræðingarlögmálum sem ég hef efasemdir um að hafi síðan alls kostar skilað sér því að sláturkostnaður hefur á sama tíma ekki minnkað.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en ég treysti því að hv. þm. Jón Gunnarsson muni fylgja skoðunum sínum eftir. Hann hefur sterkari stöðu til þess en við sem erum í stjórnarandstöðu. Öll sú byggðaþróun og breyting sem getur orðið í sveitum landsins með því að heimavinnsla afurða aukist, heimilt verði að gera fleira á bæjunum en gert er í dag, getur breytt stöðunni á landsbyggðinni mjög mikið. Ég fagna þeim áhuga sem hér hefur komið fram.

Mig langar síðan aðeins og þykir rétt að halda því til haga, varðandi fjárupphæðir þær sem fara til geitaræktarinnar, af því að það er tillaga okkar flutningsmanna að fjárframlög verði hækkuð, að hér er ekki um umtalsverða peninga að ræða. Í dag greiðir ríkið fimm þúsund kr. með hverri skýrslufærðri geit. Ef skýrslufærðar geitur eru 400, eins og talið er eða upp undir það þá eru þetta tvær millj. kr. á ári. Það er ekki há upphæð miðað við að um er að ræða mjög brýnt verkefni til framtíðar. Það er aftur á móti ekkert sem segir að um aldur og ævi þurfi að borga styrk með geitum. En skylda ríkisins er að gera það meðan þess þarf. Meðan geitum fækkar er sá styrkur of lágur og væri í raun eðlilegast mælt með lögmálum kapítalismans, hvort geitfjárstyrkurinn sé nógu hár, með því að okkur takist að fjölga geitunum. Helst þyrftu þær að vera svona um þúsund til að erfðamengið sé nokkuð öruggt og staða okkar öruggari en nú er.

Að öðru leyti vil ég taka undir það sem komið hefur fram í umræðunni.