135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[15:32]
Hlusta

Flm. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Fyrsti flutningsmaður þess er Björn Valur Gíslason varaþingmaður Vinstri grænna og meðflutningsmenn eru Jón Bjarnason og Atli Gíslason.

Það er lagt til í 1. gr. þessa frumvarp að á eftir 27. gr. laganna komi ný grein, 28. gr. sem mælir fyrir um að gildistími fiskveiðistjórnarlaganna verði til 1. september 2010 en þá taki gildi ný heildarlög um stjórn fiskveiða.

Í 2. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að sjávarútvegsráðherra skuli þegar við gildistöku laga þessara skipa nefnd sem vinni að mótun heildarstefnu í sjávarútvegsmálum sem komi í stað núverandi laga um stjórn fiskveiða. Grundvallarmarkmið slíkra laga, nýrra laga um stjórn fiskveiða, skulu vera að nytjastofnar á Íslandsmiðum verði óvefengjanlega sameign íslensku þjóðarinnar og að þau tryggi verndun, sjálfbærni og hagkvæma nýtingu sjávarauðlinda og lífríkis sjávar, sem og trausta atvinnu og byggð í landinu.

Það er síðan lagt til að í nefndina verði skipaðir tveir fulltrúar allra þingflokka og nefndin eigi náið samstarf við Hafrannsóknastofnun og hagsmunaaðila.

Tilgangur þessa frumvarps er að vinna að því að skapa víðtæka sátt um fiskveiðistjórnarkerfið, um sjávarútvegsstefnuna og fiskveiðistjórnarstefnuna og umfram allt að snúa hér vörn í sókn.

Sem fyrr segir þá gerir frumvarpið ráð fyrir því að lög um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, í heild sinni falli úr gildi og í stað þeirra komi ný lög um stjórn fiskveiða sem taki gildi frá sama tíma. Með þessu móti er löggjafanum sett nauðsynleg tímamörk til þess að ráðast í þá aðkallandi vinnu í þessum efnum sem til þarf, en um leið er gengið út frá því að allar grundvallarbreytingar fái nauðsynlegan fyrirvara og aðlögunartíma. Flutningsmenn telja mjög mikilvægt að sjávarútvegurinn búi við stöðugleika og að fyrirtæki og starfsfólk í greininni sjái jafnan hvert stefnir í lagaumhverfinu með góðum fyrirvara. Fram hjá því verður ekki litið að óstöðugleiki og óvissa hefur verið fylgifiskur núverandi laga um stjórn fiskveiða fyrir byggðarlög, sjómenn, fiskverkafólk og útgerðir og fiskverkendur því er tímabært að skapa greininni allt annað og betra lagaumhverfi.

Frá því að þetta frumvarp var lagt fram hafa orðið vatnaskil í þessu máli. Ég segi vatnaskil og þar er ég að vísa til þess að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur komist að þeirri niðurstöðu vegna kæru tveggja einstaklinga, Erlings Sveins Haraldssonar og Arnar Sævars Sveinssonar, að íslenska ríkið hafi með kerfinu brotið gegn 26. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, þ.e. jafnræðisreglu þessa samnings sem við erum skuldbundin til að hlíta að þjóðarétti. Reyndar er það svo að sams konar jafnræðisregla eða svipuð, þó hún gangi eitthvað lengra, er auðvitað í gildi í íslensku stjórnarskránni. Og við það bætist að við höfum sjálfstætt atvinnufrelsisákvæði í stjórnarskránni.

Það kemur fram í niðurstöðu þessarar nefndar að meginálitaefnið var hvort kærendur verði að lögum skyldaðir til að greiða samborgurum sínum fé til að afla sér fiskveiðiheimilda til þess að eiga kost á veiðum. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu eða bendir á þá sérstöðu málsins að nytjastofnar á Íslandi séu sameign íslensku þjóðarinnar og segir beinlínis að kvóta sem hefur verið úthlutað og er ekki lengur notaður af upphaflegum handhafa megi selja eða leigja á markaðsvirði í stað þess að skila honum aftur til úthlutunar til nýrra handhafa samkvæmt sanngjörnum og réttlátum viðmiðunum. Segir nefndin að ríkið hafi ekki sýnt fram á að þetta fyrirkomulag og háttur við innleiðingu kvótakerfisins standist sanngirniskröfu.

Þessi niðurstaða nefndarinnar er afar skýr. Leiga og sala á kvóta stenst ekki sanngirniskröfur. Það á að endurúthluta komi slíkt upp á. Það er að berja hausnum við steininn að neita að samþykkja þessa afar skýru niðurstöðu og felur í sér alvarlegar hættur fyrir þjóðina og fiskveiðistjórnarkerfið sem við vildum standa að.

Ég vil nefna að það blasir við, frú forseti, að í kjölfar þessa álits mannréttindanefndarinnar munu kærendur fara dómstólaleið á Íslandi til að ná fram fullum réttaráhrifum þessa álits bregðist íslensk stjórnvöld ekki við þessum alvarlegu tíðindum og þessum alvarlega áfellisdómi yfir kvótakerfinu. Það blasir líka við að við endurupptöku refsimáls gegn kærendum til þessarar mannréttindanefndar í Hæstarétti að Hæstiréttur mun sýkna. Það eru, eins og ég hef orðað það áður, mun meiri líkur á því en minni að Hæstiréttur muni sýkna þessa tvo einstaklinga af þeim refsidómi sem rétturinn kvað upp yfir þeim. Komi til þess þá er kerfið allt saman í uppnámi og ég ætla ekki að lýsa því nánar. Þess vegna verðum við að láta hendur standa fram úr ermum og fara í þessa nauðsynlegu og mjög svo tímabæru endurskoðun. Annað væri óábyrgt af stjórnvöldum. Við höfum ekki allan tíma fyrir okkur. Við höfum aðeins tíma til, að ég held, 12. júní næstkomandi til að bregðast við. Og ég hygg, frú forseti, að samþykkt þessa frumvarps sem ég mæli hér fyrir, yfirlýsing, bindandi yfirlýsing til stjórnvalda um að ganga í slíka endurskoðun mundi gefa ríkisstjórninni og þinginu, útgerðarmönnum, fiskverkendum, sjómönnum, tækifæri til að ná sátt um þetta kerfi sem er löngu tímabært. Ég hygg að slík niðurstaða, slík afdráttarlaus yfirlýsing ríkisstjórnarinnar mundi nægja nefndinni sem viðbrögð ríkisstjórnarinnar því það er algjörlega deginum ljósara í mínum augum að kerfi sem fiskveiðistjórnarkerfið verður ekki slegið af á örfáum mánuðum og gjörbreytt. Til þess þarf lengri aðlögunartíma.

Frú forseti. Það hafa staðið mjög harðar deilur um stjórn fiskveiða í meira en tvo áratugi og um ekkert annað mál hefur verið tekist á í þjóðfélaginu af jafnmikilli hörku. Ég held því fram að þessar deilur hafi skaðað ímynd sjávarútvegsins og skaðað greinina í heild sinni auk þess að skipa þjóðinni og ekki síst þeim sem starfa í greininni í tvær andstæðar fylkingar.

Rætur núverandi laga um stjórn fiskveiða ná aftur til ársins 1983 er sett voru lög um aflamarkskerfi sem giltu fyrst um sinn til eins árs í senn. Með þeim var úthlutuðum aflaheimildum skipt upp á milli skipa í ljósi aflareynslu þeirra síðustu þriggja ára á undan. Lög um stjórn fiskveiða voru síðan samþykkt á Alþingi á vordögum 1990 og leystu af hólmi lögin frá 1983. Með lögum um stjórn fiskveiða varð sú breyting á að veiðiheimildum var ekki lengur úthlutað frá ári til árs heldur til lengri tíma, auk fleiri breytinga sem festu í raun í sessi það stjórnkerfi sem lagt var upp með árið 1983 og kallað hefur verið kvótakerfið. Kerfi sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur nú lýst að gangi gegn jafnræðisreglu þeirrar samþykktar sem nefndin starfar eftir og geri kerfið það er jafnaugljóst að kerfið gengur gegn jafnræðisreglu íslensku stjórnarskrárinnar.

Það hefur verið gerður fjölda breytinga á þessum lögum frá því þau voru fyrst samþykkt árið 1990. En þrátt fyrir þessar breytingar þá er markmiðslýsing fiskveiðistjórnarlaganna óbreytt, að vernda fiskstofna, að stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra. Í þriðja lagi að treysta atvinnu og í fjórða lagi að efla byggð í landinu. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að markmið þessara laga hafa aldrei náðst og reyndar hafa lögin aldrei verið fjær markmiðum sínum en einmitt í dag.

Þvert á markmið núgildandi laga um stjórn fiskveiða sýna rannsóknir Hafrannsóknastofnunarinnar að helstu nytjastofnar sjávar standa höllum fæti. Ég ætla mér ekki þá dul að kenna kerfinu einu um. Þar geta komið miklu fleiri þættir. En því miður vegna ónógra rannsókna þá stöndum við í mikilli óvissu um það. En eitt er víst að kerfið og lögin hafa ekki hjálpað upp á.

Ég held því fram að þvert á markmið laganna hafi lögin í reynd stuðlað að óhagkvæmri nýtingu sjávarauðlinda með tilheyrandi skuldasöfnun og erfiðleikum í fiskveiðum og fiskvinnslu. Það má segja og halda því fram með fullum rökum að mjög hátt markaðsverð á afurðum okkar hafi bjargað greininni fyrir horn síðastliðin tvö ár.

Þvert á markmið laganna hefur störfum í sjávarútvegi fækkað og starfsöryggi þeirra sem byggja afkomu sína á greininni hefur sjaldan verið verra, eins og uppsagnir í greininni nú síðustu missirin bera glöggt vitni um. Þvert á þau markmið laganna að efla byggð í landinu öllu hefur jafnt og þétt dregið úr mætti sjávarbyggðanna um land allt með tilheyrandi byggðaröskun og fólksflótta.

Það er algjörlega útilokað í mínum augum, það er algjörlega útilokað þó fleiri þættir kunni að koma þar til, að landslög gangi gegn grundvallarmarkmiðum sínum og það er algjörlega óásættanlegt að lög gangi gegn mannréttindum, þ.e. jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og reglunni um atvinnuréttindi.

Því er óumflýjanlegt að hefja þessa heildarendurskoðun á fyrirkomulagi fiskveiðistjórnar og móta heildstæða sjávarútvegsstefnu. Hún þarf auðvitað að taka tillit til verndunar og nýtingarsjónarmiða þar sem sjálfbær nýting sjávarauðlinda er í öndvegi. Það er — og ég árétta það — mikilvægt að landsmenn nái að sameinast um farsæl markmið í sjávarútvegsmálum og þær meginlínur sem þróun greinarinnar á að fylgja á komandi árum. Það verður hreinlega að finna sátt í þessu máli. Það verður að finna málamiðlun.

Þau atriði sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum mesta áherslu á í þessari stefnumótun eru meðal annars eftirfarandi:

Að auðlindir sjávar verði raunveruleg sameign þjóðarinnar og að einstökum byggðarlögum sé tryggður réttlátur skerfur veiðiheimilda og viðunandi öryggi.

Að sjávarútvegurinn lagi sig að markmiðum sjálfbærrar þróunar og vinni markvisst að því að bæta umgengni um náttúruna og lífríkið, þ.e. einstaka nytjastofna, vistkerfi hafsbotnsins og hafsbotninn sjálfan.

Að sjávarútvegsstefnan treysti byggð og efli atvinnu í landinu öllu ásamt því að stuðla að aukinni fullvinnslu framleiðslunnar og þar með aukinni verðmætasköpun og hámarksafrakstri auðlindanna innan lands.

Mikill misbrestur er á þessu í dag þar sem fiskverkendur án kvóta sitja ekki við sama borð og erlendir fiskverkendur sem fá í hendur fisk sem fluttur er út óunninn. Hvað er að því að binda þann afla sem ekki er unninn af handhöfum kvóta við það að hann fari á markað þannig að íslenskir fiskverkendur án kvóta og erlendir fiskverkendur geti boðið í þann afla á íslenskum markaði? Það hverfa ótrúlega mörg störf úr íslenskum sjávarútvegi með útflutningi á óunnum fiski.

Ég vil líka nefna að ný tækifæri í sjávarútvegi felast ekki síst í aukinni verðmætasköpun. Verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi hefur aukist undanfarin ár og margar útgerðar- og fiskvinnslustöðvar stunda rannsóknir á því sviði til að auka þessa verðmætasköpum. Sjávarútvegurinn er í raun þekkingariðnaður og það skiptir verulega miklu máli að búa vel að honum og gefa honum tækifæri til þróunar. Það verður að leggja meiri áherslu á þróunarstörf í greininni með aukna fullvinnslu og verðmætasköpun í huga og þar stendur upp á stjórnvöld að skapa skilyrði sem eru raunhæf.

Sjávarútvegsstefnan verður líka að stuðla að réttlátri og jafnri skiptingu gæðanna ásamt jöfnum og góðum lífskjörum þeirra sem við greinina starfa og veita henni þjónustu. Markmiðið á auðvitað að vera að afraksturinn af nýtingu sameiginlegra auðlinda dreifist með réttlátum hætti til landsmanna allra.

Sjávarútvegurinn og ekki síst fiskvinnslan verður að þróast þannig að hún verði fær um að bjóða vel launuð og eftirsóknarverð störf og standi sig í samkeppni við aðrar atvinnugreinar hvað snertir launakjör, starfsaðstæður, vinnuumhverfi og aðra slíka þætti. Ég minni á það, frú forseti, að sjávarútvegurinn á í samkeppni um mannauð, um starfsfólk, við aðrar greinar í landinu, eins og bankastarfsemi og margt, margt annað. Það er nöturlegt til þess að vita hvað við höfum dregist aftur úr varðandi menntun sjómanna og þar fram eftir götunum.

Ég man eftir því þegar ég var yngri, ég var reyndar á sjó eitt sumar, að skipstjórar voru gjarnan á aldrinum 22, 23 ára og upp í þrítugt þegar þeir byrjuðu skipstjórnarstörf sín, mörg dæmi þess. Ég hygg að yngsti skipstjórnarmaðurinn á togaraflotanum í dag sé kominn yfir fertugt. Í ljósi þess sem ég hef sagt hér blasir við að stórefla verður alhliða menntun í sjávarútvegi og auka tækifæri fólks til að afla sér frekari menntunar í greininni. Þannig má í leiðinni viðhalda og auka þá þekkingu og færni sem fyrir er í sjávarútvegi. Þar hefði ég viljað sjá mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar, í því að efla menntun og stórefla rannsóknir með milljarða framlögum.

Tryggja verður nýliðun í greininni og huga að þjálfun verðandi sjómanna. Stuðla verður að betra jafnvægi og réttlátari leikreglum í samskiptum helstu aðila innan sjávarútvegsins, þ.e. útgerðar og fiskvinnslu, verkafólks og sjómanna, sjávarbyggða og samfélagsins alls. Styrkja verður ákvæði laganna sem setja samþjöppun veiðiheimilda skorður. Undirstrika verður afnotaréttareðli veiðiheimildanna og það verður ekki bara að að draga úr braski með veiðiheimildir, það verður að koma í veg fyrir þær. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna ályktar um það að braskið feli í sér brot á jafnræðisreglu þeirra samþykkta sem nefndin starfar eftir, að framsalið verði stöðvað og fiskur sem er ekki unnin af handhöfum kvóta fari á markað þannig að innlendir fiskverkendur sitji við sama borð og erlendir. Með kerfisbreytingunum verður líka að tryggja stöðugleika og heilbrigt rekstrarumhverfi og gefa aðlögunartíma til þess. Og skoða verður sérstaklega aðstöðumun landvinnslu, sjóvinnslu og útflutnings á óunnum fiski og leita úrbóta í þeim efnum.

Flutningsmenn leggja áherslu á nauðsyn þess að ná breiðri samstöðu meðal þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum, hagsmunaaðila og annarra um þetta mikilvæga mál. Það verður að myndast víðtæk samstaða og hugmyndafræðin að baki verður að vera sjálfbær sjávarútvegur.

Hornsteinn og leiðarljós allrar stefnumótunar í þessum efnum er sjálfbær og siðferðilega ábyrg nýting lífrænna auðlinda hafsins, nýting sem byggir á rannsóknum, þekkingu og heildarsýn og stuðlar að jafnvægi í búsetu landsins. Sjálfbær atvinnustefna tekur ekki bara mið af lífríki sjávarins, hún þarf í senn að taka mið af umhverfislegum, samfélagslegum og efnahagslegum þáttum með það að markmiði að varðveita náttúru og lífrænar auðlindir hafsins, treysta byggð og atvinnu sem víðast og skapa sem mest verðmæti af sjávarauðlindunum innan lands.

Brýnt er að með nýjum lögum um stjórn fiskveiða að litið verði til verndunar og nýtingar lífrænna auðlinda hafsins í heildstæðu samhengi. Það verður að leggja áherslu á víðtækar rannsóknir til að fá sem skýrasta mynd af sem flestum þáttum í vistkerfi sjávar og samspili þeirra. Það er lífsnauðsynlegt að styrkja rannsóknirnar, það er lífsnauðsynlegt að hægt sé að segja með vissu við þjóðina að ákvörðun þorskaflahámarks á þessu fiskveiðiári muni leiða okkur fram á veginn. Það getur enginn sagt það, hvorki vísindamenn né aðrir vegna þess að grunnurinn sem við stöndum á er of veikur, vísindin nægja ekki til.

Stórefla verður hafrannsóknir með sérstakri áherslu á að fylgjast með samspili tegunda og það verður að fara að huga að staðbundnum stofnum í þorski og öðru. Það verður líka að fylgjast með þeim lífríkisbreytingum sem átt hafa sér stað í hafinu, breytingum á hitafari vegna áhrifa loftslagsbreytinga og hvaða áhrif það kunni að hafa á viðgang, útbreiðslu og nýtingu sjávarfangs okkar. Við verðum að efla möguleika rannsóknastofnana á að skoða áhrif mismunandi veiðarfæra, bera saman árangur fiskverndaraðgerða, rannsaka áhrif ólíkra veiðarfæra á hafsbotninn og sinna fleiri rannsóknarverkefnum sem ekki hefur verið sinnt sem skyldi vegna fjárskorts í greininni. Hafrannsóknastofnun hefur verið í fjársvelti og aðrar þær stofnanir sem sinna rannsóknum á lífríki hafsins.

Við verðum líka að styrkja alþjóðlegt samstarf ríkja við Norður-Atlantshafið vegna þess að þessir stofnar eru á ábyrgð fleiri en einnar þjóðar, fleiri en Íslendinga. Sérstaklega vil ég nefna í þessu samhengi að það verður að skoða áhrif togveiða á uppeldis- og hrygningarstöðvar. Hvaða áhrif hafa gegndarlausar togveiðar með þessum gríðarlega öflugu skipum haft á hrygningarslóð og uppeldisstöðvar seiða? Við vitum það ekki. Við vitum hins vegar að þessar togveiðar hafa víða stórskemmt hafsbotninn, kórallasvæði og þar fram eftir götunum, þar sem seiðin hafast hugsanlega mest við. Það er hryggilegt að á sama tíma og mælt er fyrir um aflahámark í þorski og fleiri tegundum og skerðingu, skuli svæði sem áður voru lokuð fyrir togveiðum hafa verið opnuð til þess að ná í ýsu og fleira. Það er hryggilegt vegna þess að hinn vísindalegi grunnur fyrir þeim opnunum er ekki fyrir hendi.

Við verðum að taka mið af alþjóðasáttmálum og samþykktum og lögfesta mikilvæga þætti þeirra er varða m.a. varúðar- og vistkerfisnálgun í fiskveiðum. Fiskurinn í sjónum og hafið á að njóta vafans eins og í allri umgengni okkar við náttúru þessa lands, náttúran á að njóta vafans. Í því samhengi er afar brýnt að þróa vistvænar veiðar. Getum við ekki náð markmiðum okkar og sama afla með vistvænum veiðum sem valda sem minnstum skaða á hafsbotni, lífríki sjávar og uppvaxtarskilyrðum í hafinu, skila hágæðahráefni, nýta sem best orku og valda sem minnstri mengun? Neytendur erlendis sækja í afurðir sem veiddar eru með vistvænum hætti og borgað er mun hærra verð fyrir slíkar afurðir en afurðir sem ekki lúta reglum um sjálfbæra þróun og vistvænar veiðar. Við verðum umfram allt að rannsaka hafsbotninn í þaula og vernda þau hafsbotnssvæði sem skipta mestu máli fyrir nýliðun og hrygningu.

Við þurfum að skoða orkunotkunina í sjávarútvegi með því að stuðla að orkusparnaði í nýtingu hennar. Við þurfum að endurskoða þá þætti fiskverndar sem lúta að reglum um löndun meðafla, notkun veiðarfæra, landhelgislínum sem vernda grunnslóðina, friðun svæða og friðun á hrygningartíma.

Fiskiskip þarf að flokka meira en hingað til hefur verið gert með hliðsjón af stærð, útgerðarháttum, veiðarfærum o.fl. Við verðum að skoða veiðarfærin og kappkosta að nota ekki veiðarfæri sem eru til þess fallin að skemma hafsbotninn og skemma fyrir uppeldis- og hrygningarstöðvum. Kortleggja verður þessi svæði. Það er nokkur vissa fyrir því að þorskstofninn fari talsvert víða en leiti þegar hann er kominn á hrygningaraldur á sömu slóð og hann ólst upp á. Það eru líka vísbendingar um að hrygningarsvæði séu tiltölulega afmörkuð. Allt þetta þurfum við að fá fullvissu um sem allra fyrst og ég hygg að við ættum að skoða það alvarlega í þessu samhengi að færa togveiðilandhelgina út í 12 mílur og hleypa ekki togveiðum inn fyrir 12 mílurnar nema við séum örugg um að þær valdi ekki skaða. Við vitum fullvel að sums staðar á hafsbotninum er hægt að stunda togveiðar en annars staðar alls ekki. Við ættum að hugsa það til hlítar heimila ekki togveiðar innan 12 mílna nema vita með vissu fyrir fram að við séum ekki að spilla hafsbotni, spilla hrygningar- og uppeldisstöðvum.

Ég ætla að halda því hér til haga, frú forseti, að á undanförnum árum hefur orðið umtalsverður ágreiningur milli vísindamanna Hafrannsóknastofnunar annars vegar og sjómanna og útgerðarmanna hins vegar varðandi mat á ástandi fiskstofna og lífríki hafsins og um þær aðferðir sem notaðar eru við stofnstærðarmat fiskstofna. Það má allt eins halda því fram að myndast hafi gjá milli þessara aðila og því miður hafa deilurnar fremur harðnað á síðustu árum en hitt. Við verðum að skapa gagnkvæmt traust milli vísindamanna Hafrannsóknastofnunar og sjómanna og fiskverkafólks og annarra aðila sem stunda rannsóknastarfsemi á þessu sviði. Það er afar brýnt að reynsla aðila sem starfa í sjávarútvegi ásamt vísindalegum rannsóknum haldist í hendur við mat á náttúru hafsins. Það verður að brúa það bil sem þarna hefur orðið milli hagsmunaaðila.

Ýmsar leiðir eru færar í þessum efnum. Flutningsmenn þessa frumvarps telja rétt að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skoði það í þaula að hleypa af stokkunum tilrauna- og rannsóknarverkefni, Sjómenn græða hafið, eins og við nefnum það í greinargerð okkar, í samvinnu við sjómenn og útgerðir. Við teljum að semja eigi við fjölbreyttan hóp aðila víðs vegar um landið sem afli upplýsinga og miðli af reynslu sinni af umgengni við hafið og varpi þannig betra ljósi á lífríki hafsins og stöðu fiskstofna. Meðal þeirra verkefna sem nefna má í þessu samhengi er nákvæm skráning afla úr tilteknum veiðarfærum á ákveðnum veiðistöðum, skráning á yfirborðshita og botnhita sjávar á veiðistöðum, söfnun sýna úr sjó og lífsýna úr sjávardýrum, þróun veiðarfæra og veiðitækni o.fl. Til þessa rannsóknarverkefnis, sem ég kalla rannsóknarveiðar og verða stundaðar af fleirum en Hafrannsóknastofnun, verði úthlutað tilteknum aflaheimildum á hverju rannsóknarsvæði eða farið að 3. gr. fiskveiðistjórnarlaga að slíkur afli reiknist ekki til heildarafla samkvæmt kvótakerfinu.

Ég hygg að slíkar samanburðarveiðar við atvinnuveiðar, slíkar rannsóknarveiðar mundu til að mynda leiða í ljós nokkuð óyggjandi hvert umfang brottkasts er og fleiri þætti sem er afar brýnt að liggi fyrir skýrar upplýsingar um en að við byggjum ekki á áætlunum án nægs vísindalegs grunns. Ég hygg að sjómenn og útgerðarmenn gætu sótt um að fá aðild að slíku rannsóknarverkefni og fengið rannsóknarheimildir gegn því að sinna skyldum í tiltekinn tíma í samvinnu við Hafrannsóknastofnun og aðrar stofnanir og fyrirtæki á sviði hafrannsókna, veiða og vinnslu. Stórefla verður svæðisbundnar tilrauna- og rannsóknastöðvar sem fylgi þessum tilraunum eftir og hafi eftirlit með framkvæmd þeirra. Vísi að slíkum stöðvum er að finna víða um land. Ég hygg, frú forseti, að það væri snörp mótvægisaðgerð í þeirri erfiðu stöðu sem við erum í núna í sjávarútvegi að efla stórlega starfsemi eða sjávarútvegsrannsóknir frá þeim sjávarbyggðum sem lakast standa í dag, setja milljarða í þetta verkefni, hugsa stórt og fara í það af krafti en ekki byggja á allt of miklum ágiskunum og áætlunum, safna vísindalegum grunni til að taka meðvitaðar ákvarðanir um aflamark o.fl.

Ég vil vekja athygli á því líka að fyrir utan Hafrannsóknastofnun og útibú hennar víðs vegar um landið stunda mörg útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki í dag margvíslegar rannsóknir til að efla verðmætasköpun og aðrar rannsóknir. Ég nefni rannsóknir á humri á vegum Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum og þar fram eftir götunum. Þessar rannsóknir í samvinnu við Hafrannsóknastofnun þarf að stórefla. Hverjir eru best til þess fallnir að græða hafið og vernda fiskstofna? Jú, auðvitað sjómenn og útgerðarmenn. Ef ekki er samstaða milli þeirra aðila og hins opinbera þurfum við að tryggja að svo verði. Með slíkum rannsóknarveiðum sem ég nefni hér verður tryggt að allur afli komi í land. Þá fáum við mynd af brottkasti, eins og ég sagði áðan, aflasamsetningu o.fl. Til þessara rannsókna, hæstv. sjávarútvegsráðherra, tel ég jafnframt rétt (Gripið fram í: Ávarpa forseta.) að veita innheimtu veiðigjaldi til, frú forseti.