135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[16:05]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir miður að hv. þm. Mörður Árnason mæti þessu frumvarpi með þeirri neikvæðni sem raun ber vitni og jafnframt útúrsnúningum. Stefna okkar í fiskveiðistjórnarmálum er nokkuð klár og fyrir henni verða gerð betri skil í ræðum þingmanna VG síðar í dag.

Það sem gerst hefur hvað varðar afnotaréttareðli fiskveiðiheimilda er að í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða hefur verið búið til eignarréttarhugtak sem velkist mjög fyrir mönnum. Nýtt eignarréttarhugtak, sameign þjóðarinnar. Menn þurfa að skilgreina mjög nákvæmlega eðli afnotaréttar af auðlindum. Það vefst fyrir fólki í dag. Lögfræðingar halda uppi löngum deilum m.a. um hvort ríkið geti leyst til sín aflaheimildir sem gengið hafa kaupum og sölum án greiðslu eða ekki, hvort eignarnámsákvæði stjórnarskrárinnar nái til þessara heimilda sem gengið hafa kaupum og sölum eða ekki. Það er bara alls ekki ljóst í augum fræðimanna og annarra hvað felst í sameignarhugtaki 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna.

Að því er varðar stefnu flokksins að öðru leyti þá leyfi ég mér að vísa í ræður sem félagar mínir í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði munu flytja hér síðar í dag. Ég ætlast til þess að umræða um málið verði ábyrg og málefnaleg enda er lagt úr vör með þeim hætti.