135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[16:12]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. sjávar- og landbúnaðarráðherra. Ég sagði hér fyrr í dag að fiskveiðistjórnarkerfið sé gjaldþrota. Það hefur ekki skilað meginmarkmiðum sínum. Það er óásættanlegt. Aflaheimildir hafa færst á fárra manna hendur. Braskað hefur verið með aflaheimildirnar. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur sagt að það standist ekki jafnræðisreglu þeirra samþykkta sem þeir fara eftir. Greinin stendur afar veikt í dag. Maður veltir fyrir sér hagræðingunni í grein sem er jafnskuldsett og raun ber vitni. Lítið má út af bregða til að greinin fari illa af því hún er svo skuldsett vegna þess að bankarnir hafa verið ábyrgðarlausir í lánveitingum. Segja má að kvóta- og aflahlutdeildin sé komin í hendur bankanna að stóru leyti. Hvað eru menn að hugsa í því samhengi?

Það er grundvallaratriði, hæstv. sjávarútvegsráðherra, að endurskoða kerfið út frá reglum um sjálfbæra þróun, að standa á pottþéttum, vísindalegum grundvelli með því að stórefla rannsóknir og viðurkenna þann vanda sem er til staðar og taka höndum saman um að leysa úr honum og skapa sátt í greininni.