135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[16:14]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði nú kosið að hv. þingmaður hefði reynt að fjalla um það sem ég spurði um í stað þess að endurtaka sína gömlu frasa og vera með almennt tal um það sem við fjöllum um hér. Ég hef oft heyrt að þetta er sjónarmið hv. þingmanns í almennu samhengi.

En það sem mér finnst skipta miklu máli er að við skiljum þó að minnsta kosti það sem liggur að baki frumvarpinu. Frumvarpstextinn er að því leytinu skýr að gert er ráð fyrir að fyrna eða hafa sólarlagsákvæði í lögum og síðan eigi að setja nefnd í málið. Síðan er reynt með frekar almennum hætti að útskýra að hverju skuli stefnt. Þar er m.a. sagt, sem ég held að skipti miklu máli, með leyfi virðulegs forseta:

„Sjávarútvegurinn, ekki síst fiskvinnslan, þróist og verði fær um að bjóða vel launuð og eftirsóknarverð störf og standi sig í samkeppni við aðrar atvinnugreinar hvað snertir launakjör, starfsaðstæður, vinnuumhverfi og aðra slíka þætti.“

Er ekki alveg ljóst mál að ef við ætlum að ná því markmiði verði sjávarútvegurinn að hafa mjög rúmar heimildir til hagræðingar? Er ekki alveg ljóst mál að sjávarútvegurinn verður þess vegna að hafa möguleika á því að fjárfesta í nýrri tækni? Við vitum alveg til hvers það leiðir. Það leiðir til aukinna afkasta. Það leiðir til þess að starfsfólki mun smám saman fækka, alveg eins og við höfum séð að gerst hefur á undanförnum árum. Það er ekki af illsku stjórnenda fyrirtækjanna sem fólkinu hefur fækkað. Menn hafa reynt að ná niður kostnaði og beitt nýjustu tækni til að geta sótt fram á markaði erlendis og þar hafa menn verið að ná miklum árangri.

Tökum dæmi úr uppsjávarvinnslunni, uppsjávarfiskveiðunum, þar sem við höfum séð að náðst hefur mikill árangur í manneldisvinnslu í uppsjávarfiski, eitthvað sem menn létu sér ekki detta í hug fyrir fimm eða tíu árum síðan.

Er ekki alveg ljóst mál, virðulegi forseti, að það mun leiða til þess að fólki í fiskvinnslu mun fækka? Og er ekki rétt, af því að hv. þingmaður kallaði eftir efnislegum, málefnalegum umræðum, að menn viðurkenni og gangi út frá því að þannig verði það ef menn ætla að á því markmiði sem vinstri grænir setja hér í einum tölusetta liðnum? (Forseti hringir.)