135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[16:16]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar á ávarpsmistökum mínum.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt fram ýmsar tillögur. Ég ítreka það og geri grein fyrir þeim síðar í þessari ræðu. Við höfum lagt til að afli færist í miklu meiri mæli á markað þannig að íslenskir fiskverkendur án kvóta geti staðið jafnfætis erlendum fiskverkendum sem kaupa óunninn fisk á Íslandi en með því er verið að flytja burt fullt af störfum af landinu. Það blasir við.

Það blasir líka við að fulltrúar fiskverkenda án kvóta sem komu á fund sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar sögðu að veruleg breyting hafi orðið á síðustu árum, þeir fái ekki fisk. Vandinn sem blasir við og afleiðingar þess eru að markaðir erlendis kunna að tapast. Markaðir sem fiskverkendur hafa ræktað upp og sinnt kunna að tapast og fara í hendur erlendra framleiðenda. Við verðum að horfa til þess.

Ég er alls ekki viss um, hæstv. sjávarútvegsráðherra, að einokun, að aflaheimildir færist á stöðugt færri hendur, hækki verð á afurðum okkar, að massaframleiðsla á fiski skapi hærra verð en smáframleiðendur fengju, smáframleiðendur sem framleiða fyrir sérþarfir. Ég er fjarri því að vera viss um það. Ég hygg að minni framleiðendur í sérhæfðri vöru skili meiri hagkvæmni, betri afrakstri og hærra verði en stórframleiðendur. Það hefur margsýnt sig.

Aðalatriðið er að við verðum að finna leiðir til að efla fiskstofna við landið. Þar hefur okkur mistekist. Við verðum að setja í þetta stórfé, (Forseti hringir.) milljarða.