135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[16:39]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að ríkisstyrkur til íslensks sjávarútvegs er sennilega um þúsund milljarðar. Til hvers þurfti að fella niður 650 milljónir í ár af svokölluðu veiðileyfagjaldi? Það var ætlað að veiðileyfagjald yrði 1.100 milljónir, en að ósk og stuðningi stjórnarliðsins var það lækkað niður í 450 milljónir. Hvers vegna? Var það ekki vegna slæmrar stöðu í íslenskum sjávarútvegi? Það voru alla vega rökin þegar verið var að fara fram á lækkunina.

Bankar hafa dregið verulega úr lánum til íslensks sjávarútvegs upp á síðkastið. Frá því að sá niðurskurður var staðfestur af ráðherra að fara með þorskveiðarnar niður í 130 þús. tonn drógu bankarnir verulega úr lánum til íslensks sjávarútvegs, og eftir að mannréttindanefndarálitið kom hefur það nánast alveg stoppað.

Það er ömurlegt til þess að vita að hv. þm. Jón Gunnarsson skuli draga álit mannréttindanefndarinnar í efa vegna þess að atkvæðgreiðslan fór 12:6 — þó að það hefði bara munað einu atkvæði væri það ekki rétt. Á kannski að breyta dómum í Hæstarétti ef þeir fara 3:2? Það er ekki gert. Þetta er álit nefndar og það er fáránlegt að vera með þennan útúrsnúning fyrir nú utan það að tveir af þessum sexmenningum lögðu líka fram sérálit sem var miklu nær raunverulega áliti tólfmenninganna sem töldu að verið væri að brjóta mannréttindi. Hv. þingmaður ætti því að átta sig á að hér er verið að brjóta mannréttindi og það hefur verið gert í 24 ár. Við eigum að snúa af villu okkar vegar og laga þetta.