135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[16:41]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn um umrætt álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Um það munu lögspekingar okkar fjalla. Álitið er í skoðun hjá stjórnvöldum og við skulum bíða niðurstöðu þeirrar skoðunar. Ég ætla ekki að kveða upp úr um það frekar hér. (Gripið fram í.)

Hvar hafa bankarnir ekki dregið úr lánastarfsemi upp á síðkastið? Í hvaða atvinnugrein hefur ekki dregið úr framlögum eða lánum banka almennt á þessum markaði? Það er nú bara þannig að bankar eru almennt að draga úr lánveitingum sínum við þær aðstæður sem nú eru í efnahagslífinu, það er vitað mál. Það gildir að sjálfsögðu um sjávarútveg eins og aðrar greinar í þessu samfélagi, en það er ekkert frekar í sjávarútvegi en öðrum greinum, alls ekki.

Á síðasta fiskveiðiári var fiskveiðigjaldið 450 milljónir og miðað (Gripið fram í.) við útreikninga hefði það getað orðið milli 1.000 og 1.100 milljónir í ár. Fullgild rök voru fyrir því að fresta þessum hækkunum og halda gjaldinu í þeirri sömu upphæð og það hafði verið vegna þess að við erum að fara í gegnum öldudal í sjávarútvegi og ekki ástæða til að gera aðstæður fyrirtækjanna í veiðum og vinnslu enn erfiðari en er í dag. Til hvers? Jú, til þess að standa við bakið á þeim í því að komast í gegnum þennan öldudal og gera þeim færara sem í þessu standa að reka fyrirtæki sín, sem leiðir þá væntanlega til færri uppsagna (Forseti hringir.) en raun ber þó vitni.