135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[16:46]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mjög varhugavert, eins og komið hefur fram í máli hv. þingmanna, þegar talað er um um álit þessa hóps á vegum Sameinuðu þjóðanna eins og einhvern stóradóm í þessu máli. Það kemur ítrekað fram hjá lögspekingum okkar að þessi hópur fer ekki með neitt dómsvald. Niðurstöður hans eru engan veginn bindandi. Eftir því sem mér er sagt eru fjölmörg dæmi um niðurstöður þessa hóps gagnvart hinum ýmsu málum í mismunandi löndum, álit sem hafa fallið og er síðan ekki endilega breytt eftir. Við munum bíða eftir rökstuðningi íslenskra stjórnvalda og viðbrögðum þeirra við þessu sem verða auðvitað byggð á þeim skoðunum sem nú munu fara fram.

Ég vil taka það fram að sjávarútvegsnefnd þingsins hefur hist ítrekað út af þessu máli. Hún hefur fengið á fund sinn fulltrúa allra hagsmunaaðila, eða flestra hagsmunaaðila sem að málinu koma og niðurstaðan er á einn og sama veg. Menn eru ekki almennt búnir að mynda sér skoðun á þessari niðurstöðu að öðru leyti en því að þetta er ekki bindandi og íslensk stjórnvöld þurfa ekki að fara eftir þessu beint en eru auðvitað skuldbundin til þess að skoða málið og gefa greinargerð og skýringar til svars.

Þegar hv. þm. Mörður Árnason kemur hér upp og segir að ég hafi komið án þess að nefna neinar lausnir og varið núverandi kerfi án þess að nefna neinar lausnir, þá bendi ég á að ég tel að þetta kerfi sé í meginatriðum að uppfylla þann tilgang sem með því er. Ég bið um það að aðrir komi (Forseti hringir.) þá með einhverjar málefnalegar lausnir í stað þess almenna hjals sem hér fer fram. (Forseti hringir.) Hvalurinn er klárlega mikill áhrifavaldur í þessu en ákvarðanir okkar eru auðvitað stærsti áhrifavaldurinn.