135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[16:48]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég held að það sé ákaflega óvarlegt fyrir alþingismann á Íslandi, fyrir mann sem hér situr í umboði þjóðarinnar, að kalla mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hóp. Ég held að það sé engu skárra en það að telja síðan upp þjóðerni, litarhátt og trúarskoðanir þeirra sem sitja í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Ég segi ekki meira um það.

Það er alveg ljóst að við þurfum að gera meira en að fara — ég man ekki hvað hv. þingmaður sagði um þetta, að Íslendingar þyrftu ekki að fara eftir þessu beint. Það er alveg ljóst að við þurfum að bregðast við þessum úrskurði, þessari niðurstöðu. Það getur vel verið að það verði ekki kallað á lögguna til að knýja okkur til afstöðu eða til að taka til ráðstafana eða aðgerða í þessu efni. En það er alveg jafnljóst að virðingu okkar á alþjóðavettvangi og einmitt í hafréttarmálum, í sjávarútvegsmálum, þar sem við höfum sannarlega notið virðingar fyrir frumkvæði og skynsamlegar ráðstafanir á köflum, þeirri virðingu er hætt ef við náum ekki afstöðu í þessu.

Það er einmitt hérna á þessum stað sem á að ræða þetta í stað þess að bíða eftir því að einhverjir lögspekingar komist að niðurstöðu. Það verður gert hér á eftir í umræðum um frumvarpið sem Jón Magnússon og fleiri hv. þingmenn standa að.

Ég vil hins vegar segja það að ég er alls ekki ósammála hv. þingmanni Jóni Gunnarssyni um að ýmislegt gott hafi leitt af þeim breytingum sem voru gerðar 1984. Vissulega hefur það gerst. En ég vek athygli á því að hv. þm. Jón Gunnarsson bendir ekki á neinar leiðir út úr þeim vanda, hvorki þeim vanda sem snýr að samfélagi manna (Forseti hringir.) og mannréttindanefndin hefur sagt sitt um, né þeim vanda sem snýr að samfélagi sjávarins og niðurskurðurinn bendir til að sé meiri en menn vissu, nema það að veiða hval. (Forseti hringir.)