135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[16:53]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ætli hafi verið tekist á um nokkurt málefni af eins miklum tilfinningahita á undanförnum 20 árum og um fiskveiðistjórnarkerfið? Það er ekkert undarlegt. Einfaldlega vegna þess að þetta kerfi hefur haft örlagaríkar afleiðingar fyrir einstaklinga, fyrir fjölskyldur, fyrir byggðarlög og fyrir atvinnufyrirtæki. Þessi lög hafa því skipt sköpum frá því þau voru sett árið 1983 og síðan fest í sessi með lögum frá árinu 1990.

Í öllum flokkum á Alþingi hefur komið fram gagnrýni á þetta kerfi á mismunandi forsendum þó. Þannig var fyrrverandi hv. félagi okkar hér í þinginu, Einar Oddur Kristjánsson heitinn, óþreytandi í að gagnrýna kerfið. Hann taldi byggðalegum sjónarmiðum ekki gert nægilega hátt undir höfði. Hann hafði athugasemdir gagnvart aflamarkshugsuninni og vildi fara sóknarmarksleið í ríkari mæli en lögin og fiskveiðistefnan hafa boðið upp á.

Þannig hefur komið fram gagnrýni á þetta kerfi innan Sjálfstæðisflokksins, sennilega minni innan Framsóknarflokksins í tímans rás, sem hefur staðið mjög þéttan vörð kerfið. Frá öðrum stjórnmálaflokkum hefur það verið gagnrýnt á öðrum forsendum einnig.

Þá nefni ég Samfylkinguna. Þar hafa ýmsir þingmenn gengið mjög hart fram á undanförnum árum. Ég minnist ræðuhalda hv. þm. Jóhanns Ársælssonar sem var óþreytandi að gagnrýna kvótakerfið og vildi ganga mjög hart fram í að leggja það af á sem skemmstum tíma sem var og stefna Samfylkingarinnar fyrir alþingiskosningarnar 2003. Þá vildi Samfylkingin ganga harðar fram en við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vildum gera á þeim tíma því þótt við vildum fyrna kerfið, leggja það af, þá vildum við gefa okkur lengri tíma til þess, 20 ár. Það fannst mörgum óþreyjufullum félögum okkar vera of langur tími. Einörðust gagnrýni á kvótakerfið hefur vafalaust komið frá Frjálslynda flokknum sem hefur verið óþreytandi í því að setja fram gagnrýni á þetta kerfi.

Það sem er samnefnari fyrir gagnrýni þessara þriggja síðastnefndu flokka er sú skoðun að núverandi kerfi festi í sessi einkaeignarhald á auðlindinni. Við höfum reyndar heyrt innan úr Sjálfstæðisflokknum áhyggjur vegna þessa líka. En þetta held ég að sé samnefnarinn fyrir gagnrýnina frá Samfylkingunni, Frjálslynda flokknum og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Það var sagt hér fyrr við umræðuna, af hálfu þingmanns Samfylkingarinnar, sem fann þessu frumvarpi okkar í VG margt til foráttu, að hann saknaði þess að sjá ekki stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hvað viljið þið gera, spurði hv. þm. Mörður Árnason, flutningsmenn VG á þessu frumvarpi? Ég vil vísa hv. þingmanni á að lesa tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þar sem við gerum ítarlega grein fyrir því hvernig við höfum viljað fyrna þetta kerfi og hvernig við höfum viljað ráðstafa aflanum.

Við lögðum til um síðustu aldamót að hafin yrði línuleg fyrning veiðiréttar um 5% á ári. Við vildum fara hægt í sakirnar fyrstu árin til að auðvelda útgerðinni aðlögun að breyttum aðstæðum. Þá lögðum við til að henni yrði gert mögulegt að halda eftir 3% af þeim 5% sem árlega yrðu fyrnd fyrstu sex árin. Þessum 3% aflaheimilda réði útgerðin sem eins konar biðkvóta sem greitt væri fyrir með sérstökum afnotasamningi við ríkið til sex ára. Að sex árum liðnum bætast þessi 3% aflaheimilda ár frá ári við þær sem fyrndar eru árlega, þ.e. 5%. Með öðrum orðum, við vildum fara hægt í sakirnar fyrstu árin en að 20 árum liðnum værum við búin að fyrna kerfið.

Ef hugmyndir okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hefðu náð fram að ganga þá værum við núna, á því herrans ári 2008, komin vel á veg með að fyrna kvótakerfið. Hvað vildum við síðan gera við kvótann? Það er synd að hv. þm. Mörður Árnason heyrir ekki þennan lestur. Við vildum að þriðjungur þeirra aflaheimilda sem fyrntust á hverju ári yrði boðinn upp á landsmarkaði, útgerðum gefinn kostur á að leigja þær til allt að sex ára í senn. Hér segir, með leyfi forseta, upp úr stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs:

„Fiskvinnslum sem stunda frumvinnslu sjávarafurða gefist einnig kostur á að bjóða í veiðiheimildir í hlutfalli við raunverulega vinnslu þeirra undangengin ár samkvæmt nánari reglum. Leigutekjum vegna þessara aflaheimilda skal skipt milli ríkis og sveitarfélaga eftir nánari reglum sem settar verði.

Annar þriðjungur þeirra aflaheimilda sem fyrnast á hverju ári verði bundinn við sjávarbyggðir umhverfis landið. Við skiptingu veiðiréttinda milli sveitarfélaga sjávarbyggða og hlutfallslegu umfangi innan greinarinnar að meðaltali síðastliðin 20 ár. Um þessa skiptingu verði settar nánari reglur að viðhöfðu víðtæku samráði þeirra sem hagsmuna eiga að gæta.

Hlutaðeigandi sveitarfélög ráðstafa þessum þriðjungi veiðiheimildanna fyrir hönd þeirra sjávarbyggða sem þeim tilheyra. Sveitarfélögin geta leigt út veiðiheimildir eða ráðstafað með öðrum almennum hætti á grundvelli jafnræðis en þeim er einnig heimilt að verja hluta veiðiheimildanna tímabundið til að styrkja hráefnisöflun og efla fiskvinnslu innan viðkomandi byggðarlaga. Þannig öðlast þau tækifæri til að efla vistvænar veiðar, styrkja staðbundna báta og dagróðraútgerð, gæta hagsmuna sjávarjarða og auðvelda nýliðun og kynslóðaskipti í sjávarútvegi. Óheimilt er að framselja byggðatengd veiðiréttindi varanlega frá sveitarfélagi. Kjósi sveitarfélögin að innheimta leigugjald fyrir aflaheimildirnar renna tekjurnar til viðkomandi sveitarfélags.

Í þriðja lagi: Síðasti þriðjungur fyrndra aflaheimilda á ári hverju verði boðinn þeim handhöfum veiðiréttarins sem fyrnt er frá til endurleigu gegn hóflegu kostnaðargjaldi á grundvelli sérstaks afnotasamnings til sex ára í senn. Samningnum fylgir sú kvöð að réttindin verði aðeins nýtt af viðkomandi aðila. Ráðstöfun þessa hluta aflaheimilda verði tekin til endurskoðunar áður en 20 ára fyrningartímabilinu lýkur.“

Síðan eru ákvæði í stefnu okkar um nýtingarstuðla, þannig að vistvæn veiðarfæri gefi meiri kvóta, meiri afla en veiðarfæri sem ekki eru talin vistvæn.

Hvers vegna, hæstv. forseti, er ég að lesa upp úr stefnumörkun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs? Ég er að gera það hv. þm. Merði Árnasyni til upplýsinga. Hann spurði hvort við hefðum engar tillögur fram að færa og ég er að vísa til þess að við höfum sett fram ítarlegar tillögur um hvernig taka eigi á þessum málum. Hvernig eigi að fyrna kvótakerfið.

En út á hvað gengur þá þetta frumvarp? Gengur það út á að farið verði eftir þeim bókstaf sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur boðað? Nei. Við erum að hvetja til þess að menn hefji sig upp úr hjólförunum. Það erum við að gera. Við viljum hlusta á sjónarmið annarra líka. Við viljum hlusta á sjónarmið Samfylkingarinnar, á sjónarmið Frjálslynda flokksins, á sjónarmið þeirra innan stjórnarliðsins sem eru tilbúin að ljá þessum málflutningi okkar lið. Við viljum reyna að skapa þverpólitíska sátt um að taka raunverulega á þessu kerfi. Þess vegna leggjum við fram þá tillögu að við setjum okkur tímamörk. Sólarlag inn í kerfið. Það er ekkert óskaplega róttækt við það vegna þess að kerfið frá 1983, frá því að kvótalögin voru sett 1983, fram til 1990 þegar lögunum var breytt, eða fram undir það, þá var úthlutað til skamms tíma, fyrst í stað til árs í senn. Þannig að þetta er í rauninni ekki ný hugsun.

En það er reyndar nýtt, að hugsa til þess að við reynum í sameiningu að hefja okkur upp úr hjólförunum og smíða fiskveiðistjórnarkerfi á þeim forsendum að sönnu sem við teljum mikilvægastar, að tryggja sameign þjóðarinnar allrar á auðlindinni og að tryggja hér sjálfbæra þróun, sjálfbærar veiðar. Það er nokkuð sem ég hygg að sé hljómur fyrir í öllum stjórnmálaflokkum á Íslandi. Ég hefði haldið það.

En hins vegar er það svo, að sumir stjórnmálamenn og flokkar hafa tekið mjög einarða afstöðu með þröngum eiginhagsmunum útgerðarfyrirtækja sem eiga allt sitt undir því, eða líta svo á, að halda einkaeignarhaldinu á auðlindinni og eru síðan með aðra sem leiguliða. Það er fólk sem oft talar fjálglega og rembist mjög, spyr hvort ekki sé fráleitt að setja einhverjar álögur á sjávarútveginn. En hvað eru þeir að gera sjálfir gagnvart sínum leiguliðum annað en að setja á þá óhóflegar og ósiðlegar álögur?

Nei, hæstv. forseti. Við erum að leggja fram tillögu sem miðar að því að við öll í sameiningu gerum átak til að lyfta okkur upp úr hjólförunum. En það er mikill misskilningur ef menn halda að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi ekki teflt fram úthugsuðum tillögum um það hvernig eigi að fara að þessu. En við gerum okkur grein fyrir því að við þurfum að ná samstöðu við aðra flokka og við horfum að sjálfsögðu sérstaklega til þeirra sem er annt um að tryggja sameign þjóðarinnar á þessari mikilvægu og ef til vill mikilvægustu auðlind okkar.