135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[17:07]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hér er verið að ræða frumvarp sem vinstri grænir leggja fram en það vill svo til að það er margt sem ég skil ekki og gengur ekki upp í stefnu vinstri grænna í sjávarútvegsmálum. Fyrningarleið og mannréttindamál, ég sé ekki að þetta gangi upp í dag. Ég hefði haldið að fyrningarleiðin þyrfti að vera ljós fyrir 12. júní 2008 en ekki 1. september 2010 bara vegna þessa mannréttindanefndarálits. Ég hef heldur aldrei skilið þegar þeir tala um fisk á markað sem ekki fer í vinnslu, ég hef aldrei náð þeirri hugsun hjá vinstri grænum. Ég hef heldur aldrei heyrt þá tala um að þeir vilji aðskilja veiðar og vinnslu.

Afstaða vinstri grænna á haustdögum varðandi veiðileyfagjald, þar sem þeir buðu betur en ríkisstjórnarflokkarnir og vildu afnema það með öllu, kom mér afar spánskt fyrir sjónir þegar við í Frjálslynda flokknum lögðum til að veiðileyfagjald upp á 1.100 milljónir yrði notað handa þeim sem virkilega yrðu fyrir vandræðum vegna atvinnumissis í sjávarútvegi, við vildum að sjómenn og fiskvinnslufólk fengi þetta veiðileyfagjald.

Ég minni líka á að formaður Vinstri grænna greiddi atkvæði með frjálsa framsalinu á sínum tíma, 1990, ásamt mörgum öðrum vinstri sinnuðum stjórnmálamönnum þá, sem hefur leitt þetta braskkerfi yfir okkur.