135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[17:09]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði ásamt formanni okkar höfum mótað þær tillögur sem ég gerði ítarlega grein fyrir áðan. Ég furða mig pínulítið á þessu þegar við erum að ræða um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum að reyna að einblína á það sem sameinar fremur en hitt sem sundrar. Við erum að hvetja til þess að menn hefji sig upp úr gömlum hjólförum og reyni að byggja á því sem er okkur sameiginlegt, að tryggja sameign þjóðarinnar á þessari mikilvægustu auðlind hennar og smíða kerfi sem byggir á slíkum forsendum. Þetta er verkefnið.

Ég fór yfir tillögur okkar um fyrningu kvótakerfisins fyrst og fremst til að svara þeim mönnum sem létu í veðri vaka að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði ekki sett fram tillögur um hvernig ætti að breyta þessu kerfi. Við höfum sett fram mjög ítarlegar og vel útfærðar tillögur hvað það snertir og ég leyfi mér að efast um — með fullri virðingu jafnvel fyrir Frjálslynda flokknum, sem ég hef tekið ofan fyrir hér í umræðunni fyrir einarða afstöðu í málefnum sjávarútvegsins og andstöðu við kvótakerfið — að nokkur flokkur hafi sett fram ítarlegri tillögur um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu en einmitt Vinstri hreyfingin – grænt framboð.