135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[17:26]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Í frumvarpi því sem liggur fyrir er lagt til að gildistími laga um stjórn fiskveiða standi ekki lengur en til 1. september 2010 en þá taki gildi ný heildarlög um stjórn fiskveiða. Það er ákveðin tilraun til að koma okkur frá því fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við í dag. Það er nú einu sinni þannig að um þetta atriði og um þessi mál ríkir engin sátt í þjóðfélaginu. Það verður aldrei sátt um þetta fyrirkomulag í þjóðfélaginu vegna þess að hér er um óréttlæti að ræða.

Menn hafa bent á ýmsar leiðir. Flokkar hafa komið sér saman um ákveðna leið til að komast út úr þessum vanda, m.a. bent á ákvæði um að fara svokallaða fyrningarleið þar sem ágreiningur var um á hve skömmum tíma skyldi fyrna þau kvótaréttindi sem útgerðarmenn hafa fengið. Það var ein leiðin.

Önnur leið sem um er að ræða er sólarlagsákvæði, að þessi ákvæði kvótakerfis gangi úr sér miðað við ákveðin tímamörk. Það er önnur leið sem er eðlislík fyrningarleiðinni. Þá er miðað við að gjafakvótakerfið falli niður og búið sé að ákveða aðra leið.

Nú er það þannig að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur kveðið upp úrskurð og gefur ríkisstjórn Íslands mun skemmri tíma til að fara að þeim ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin hefur sett fram. Það girðir í sjálfu sér ekki fyrir að Alþingi Íslendinga geti sett hér ákveðin markmið, samanber það sem gert er í frumvarpinu. Þau gætu verið innan þeirra marka sem mannréttindanefndin teldi að væri nægileg til þess að komið væri á fullnægjandi ákvæðum í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu svo sem nefndin hefur gert kröfu til.

Virtur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra í sínu landi stóð frammi fyrir því að taka ákvörðun um að segja ákveðinni þjóð stríð á hendur en ekki annarri þar sem svipað háttaði til. Þetta var Winston Churchill og hann sagði: Það er fyrsta skylda okkar og frumskylda að leggja nasismann að velli og ég er tilbúinn til að gera bandalag við andskotann til þess að það markmið nái fram að ganga.

Fiskveiðistjórnarkerfið okkar er með þeim hætti að ég tel mikilvægt að beitt sé öllum ráðum og að farið sé yfir alla þá möguleika sem fyrir hendi geta verið til þess að koma þessu kerfi frá þannig að við getum búið við frelsi, atvinnufrelsi og mannréttindi og lagt niður það gjafakvótakerfi sem hér er við lýði. Spurningin er með hvaða hætti, það er annað mál. Við eigum ekki að drepa umræðunni á dreif með því að velta fyrir okkur veiðarfærum, aðferðum eða öðru þess háttar. Við eigum að stefna að sameiginlegu markmiði, að losna við gjafakvótakerfið svo að allir borgarar þessa þjóðfélags eigi auðlindina sameiginlega en ekki ákveðnir fáir útvaldir sem hafi allan rétt til hennar, geti nýtt hana, leigt hana, selt hana o.s.frv. Það eru þau atriði sem við þurfum að komast frá þannig að eignarréttur þjóðarinnar á auðlindinni sé virkur. Þjóðin á að hafa möguleika á því að ákveða með hvaða hætti auðlindin skuli nýtt og hafi arð af henni.

Þess vegna tel ég að það frumvarp sem hér liggur fyrir sé góðra gjalda vert til að þoka þessu máli áfram. Menn geta velt því fyrir sér hvort gildistími laganna, svo sem fjallað er um í 1. gr., ætti að vera 1. september 2010 eða annar. Fyrir liggur að ef sú nefnd sem lagt er til í 2. gr. kæmist að niðurstöðu fyrr mundi að sjálfsögðu vera hægt að gera þær breytingar. Ég lít þannig á að hér sé fyrst og fremst sem ákveðna viðmiðun að ræða sem bendir til að með þessari aðferðafræði sé lagt til að ákveðið sólarlagsákvæði gildi hvað varðar gjafakvótakerfið.

Það er svolítið síðan að menn rifjuðu upp sögu úr landhelgisbaráttu Íslendinga þar sem Íslendingar urðu að heyja harða baráttu til þess að ná fullum tökum á fiskimiðum sínum. Rifjað var upp að fyrst var landhelgin færð út í 4 mílur og þverun flóa og fjarða og síðan í 12 mílur, þá í 50 mílur og loks í 200 mílur. Aftur og aftur neyttu Bretar aflsmunar og fóru með málið fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag. Síðar komumst við að samkomulagi og náðum fullum sigri í landhelgismálinu. Þar með varð sameign þjóðarinnar í hafinu í kringum landið raunveruleg eign sem þjóðin hafði með að gera.

Bundnar voru miklar vonir við framtíðina eftir að Íslendingar höfðu náð fullum tökum á fiskimiðunum og við sáum fyrir okkur og gerðum ráð fyrir, þegar sigur hafði náðst í 200 mílna baráttunni, að við gætum náð 500 þús. tonnum af þorski að jafnaði árlega þegar við værum einráð á miðunum. Svo fór hins vegar ekki. Svartar skýrslur um ástand fiskstofna við land birtust og allt í einu varð ljóst að ekki var nægjanlegt að hafa komið útlendingunum út úr fiskveiðilandhelginni, meira þurfti að koma til.

Ungur sjávarútvegsráðherra þáverandi fékk tillögur frá hagsmunasamtökum útgerðarmanna og gerði þær að sínum og gjafakvótakerfinu var komið á. Allt í einu átti þjóðin ekki rétt til nýtingar á fiskinum í sjónum þrátt fyrir að lög landsins segðu að hann væri sameign þjóðarinnar. Allt í einu var nýtingarrétturinn settur í hendur á hagsmunaaðilum í útgerð og hefur verið þar síðan og orðið forsenda lánveitinga, gengið kaupum og sölum og verið uppspretta arð- og auðsköpunar fyrir þá sem fengu kvótagjafirnar.

Nú, um aldarfjórðungi síðar, birtir Hafrannsóknastofnun skýrslu sína og leggur til að hámarksafli á þorski á því fiskveiðiári sem hér um ræðir, verði ekki nema þriðjungur af því sem að var stefnt og við var miðað þegar kvótakerfinu var komið á, að gæti verið árið 2008. Hefði markmiðið með kvótakerfinu náðst þá væri ástandið ekki svona alvarlegt.

Forstjóri Hafrannsóknastofnunar sagði á tímabili að það væri vegna þess að stjórnmálamenn færu ekki að tillögum Hafrannsóknastofnunar en það yrðu þeir að gera og það hafa þeir gert að langmestu leyti. Samt sem áður breytir það ekki því að sú kvótastýrða fiskveiðistjórnun sem við höfum haft hefur ekki þjónað tilgangi sínum.

Það þýðir að kvótaflokkarnir hafa ekki bara gefið nokkrum vinum sínum afnotarétt af auðlindinni á fiskinum í sjónum, þeir hafa líka ráðið svo ráðum sínum að þeir hafa heimilað þeim að misnota auðlindina. Vísindaleg verndun fiskimiðanna hefur ekki verið til staðar, eins og dæmin sanna, þrátt fyrir að við höfum náð því markmiði sem stefnt var að með fullnaðarsigri í landhelgismálinu. Á þeim tíma mátti renna fyrir fisk og selja afla þegar að landi var komið en svo hefur farið að það er ekki lengur heimilt venjulegum Íslendingi.

Fyrir nokkrum dögum ræddum við um frumvarp þar sem venjulegum Íslendingi var meinað að leigja bátinn sinn fyrir sjóstangaveiði. Enn átti því að herða þær takmarkanir sem gjafakvótakerfið býður upp á.

Fyrir liggur að kvótakerfið hefur ekki orðið til þess að auka afrakstur af fiskimiðunum, hvað svo sem hv. þm. Jón Gunnarsson segir. Hér er um svo alvarlegt mál að ræða að menn geta ekki yppt öxlum og látið sem ekkert athugavert sé við kerfið. Það er því grundvallaratriði og eitt af meginatriðum í viðfangsefnum í íslensku þjóðfélagi að taka fiskveiðistefnuna til gagngerrar endurskoðunar með hagsmuni allrar þjóðarinnar fyrir augum.

Valdimar Jóhannesson, sem er mikill áhugamaður um þessi mál og kostaði eitt sinn miklum tíma og fé í dómsmál og hafði fullan sigur, hefur bent á ákveðin atriði sem skipta verulegu máli í sambandi við þetta. Þau eru til umhugsunar varðandi það sem við ræðum nú og styðja þá meginhugsun sem hér kemur fram, að koma verði gjafakvótakerfinu út, hvort sem það er gert með sólarlagsákvæði eins og hér er lagt til eða með fyrningu eða öðru.

Hann bendir m.a. á að útgerðin skuldi nú mikið og miklu meira en hún gerði við upphaf kvótakerfisins, að rauntölu sennilega þrefalt meira, jafnvel enn meira. Olíunotkun á hverja aflaeiningu í botnfiski hefur meira en tvöfaldast. Heildarstærð fiskiskipaflotans hefur aukist meðan botnfisksaflinn hefur dregist saman og nýliðun í útgerð er nánast útilokuð.

Þá er á það bent að aðalvaldurinn í hruni fiskstofna sé kvótastjórnunin og í því sambandi hefur verið bent á sjónarmið sem fiskihagfræðingurinn Parzival Copes hefur sett fram hvað þetta varðar. Hann bendir t.d. á kvótastýrðar fiskveiðar og hrun fiskstofna við Nýja-Sjáland og Kanada. Ekkert af þessu raskar ró kvótaflokkanna, þeirra sem vilja viðhalda óréttlætinu í samfélaginu hvað þetta varðar.

Fiskafli hér hefur dregist gríðarlega mikið saman frá því að kvótakerfið var sett á og nákvæmlega sömu hlutir virðast vera að gerast eins og við Nýja-Sjáland og Kanada þar sem fiskstofnarnir hrundu undir kvótastýrðum fiskveiðum.

Fiskveiðistjórnarkerfið og lögin og gjafakvótakerfið eru vond lög. Fyrst var okkur sagt að lögin um stjórn fiskveiða væru tímabundin nauðsyn. Síðan hafa menn tekið allt önnur sjónarmið upp og talað um að þetta væri svo mikið og merkilegt og gott kerfi að það yki afraksturinn og nýtingin væri miklu betri. Væri um slíkt að ræða, hvernig stendur þá á því að útgerðin hefur þurft að skuldsetja sig meira og meira á hverju ári í þessu yndislega kerfi þar sem menn beita aukinni hagræðingu og stuðla að aukinni hagkvæmni og aukinni arðbærni í sjávarútvegi? Væru slíkar hugmyndir eða slíkir hlutir sannir sem haldið er fram, þyrfti að sjálfsögðu ekki að auka skuldsetningu í sjávarútvegi.

Ég spyr: Þegar kemur til tímabundins samdráttar eins og talað er um í þorskveiðum, eins og ríkisstjórnin hefur ákveðið, hefðu fyrirtæki sem búið hefðu við aldarfjórðungs aukna hagkvæmni og hagræðingu átt að eiga auðvelt með að standa það af sér án þess að til kæmu einhverjar sérstakar aðgerðir ríkisvaldsins, en svo er ekki. Þær þurfa að koma til vegna þess að útgerðin stendur svo höllum fæti þrátt fyrir allt hjal um að kvótakerfið sé svo gott að það hafi leitt svo mikla hagræðingu af sér fyrir útgerðina.

Nú rétt fyrir jól þurfti meira að segja að setja sérstök lög til að takmarka og létta af verulegum hluta af svokölluðu auðlindagjaldi vegna þess að svo illa er komið fyrir hinni hagkvæmt reknu gjafakvótaútgerð. Allt rekst þetta hvað á annars horn og sýnir fram á að kvótakerfið er ekki bara óréttlátt, ósiðlegt og andstætt fullum mannréttindum Íslendinga, það er líka óhagkvæmt. Þess vegna samþykki ég hverja þá tillögu sem til þess er fallin að koma gjafakvótakerfinu, stærsta ráni Íslandssögunnar, fyrir kattarnef.