135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[17:42]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Flutningsmenn eru hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs Björn Valur Gíslason, Jón Bjarnason og Atli Gíslason.

Ég vil vekja athygli á því að frumvarpið var lagt fram áður en álit mannéttindanefndar Sameinuðu þjóðanna lá fyrir en í því áliti segir að grundvöllur kvótakerfisins — hvernig veiðiheimildum var úthlutað í upphafi og síðan heimilað að framselja þær eða leigja — stangist á við mannréttindaákvæði Sameinuðu þjóðanna og þar af leiðandi líka á við ákvæði í stjórnarskrá Íslands. Við höfum skuldbundið okkur til að hlíta og verða við áliti mannréttindanefndarinnar og úrskurður hennar áréttar nauðsyn þess að skipulag og stjórn fiskveiða verði tekin til grundvallarendurskoðunar. Það þýðir ekki að stjórnkerfi þurfi ekki að vera til staðar, síður en svo. Það þarf hins vegar að reisa það á öðrum grunni hvað varðar ráðstöfun réttinda til veiða. Við verðum líka að búa við kerfi sem byggist á lögmálum sjálfbærrar þróunar, bæði hvað varðar umgengni við auðlindina og hvernig við vinnum og ráðstöfum auðlindinni í landi. Það er inntak sjálfbærrar þróunar að allir ferlar fylgi þeim lögmálum.

Ætli það sé í anda sjálfbærrar þróunar að útgerðarmunstrið krefst stöðugt meiri olíunotkunar? Ætli það sé í anda sjálfbærrar þróunar að fiski sé ekið á flutningabílum landshorna á milli með tilheyrandi kostnaði? Menn kalla það hagræðingu sem í því felst, það er alveg hárrétt, en það kostar sitt. Vinnslan og öll meðferð atvinnugreinarinnar verður að lúta sömu reglum til þess að hámarkshagkvæmni náist hvað varðar þau lögmál sem við viljum starfa eftir til allrar framtíðar eftir bestu vitund á hverjum tíma. Séum við ekki viss á varúðarreglan að gilda, náttúran, lífríkið, auðlindin og umgerð vinnslunnar skal njóta vafans. Mikilvægt er að hafa þetta í huga þegar við tökumst á í umræðum um stjórn fiskveiða.

Frumvarpinu sem við flytjum er ætlað að opna glugga, opna nýjar víddir, nýja aðkomu hvað varðar umgengni, stjórnun og meðferð þessarar auðlindar. Eins og fram hefur komið í máli hv. þingmanna Atla Gíslasonar og Ögmundar Jónassonar er grunnstefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í sjávarútvegsmálum skýr. Síðan sú stefna var unnin, 1999 til 2000, hefur staðan að vísu breyst heilmikið. Við höfum misst stóran hluta af smábátaflotanum en eitt af markmiðunum í stefnu okkar var einmitt að standa vörð um þann flota. Það má allt vinna aftur því að allt eru það mannanna verk.

Frumvarp okkar lýtur að því að menn viðurkenni að núverandi stefna er komin í þrot. Það þýðir ekki að allt eigi að gefa laust og allt verði stjórnlaust á morgun. Nei. En það má strax byrja að vinna á þann veg að til bóta horfi. Ég var á fundi uppi á Akranesi í gær með öðrum þingmönnum Norðvesturkjördæmis, bæjarstjórn Akraness, fulltrúum verkalýðsfélagsins á Akranesi, Faxaflóahafna og framkvæmdastjóra Útgerðarfélagsins HB Granda. Í þeirri umræðu kristallaðist það hversu fullkomlega gjaldþrota kerfið er, ekki bara hvernig farið er með fiskveiðiheimildirnar, hvers konar veiðar eru stundaðar, hvort þær séu í anda sjálfbærrar þróunar eða ekki, það eru fáir sem velta því fyrir sér. En það var kannski ekki síst það að sjá hvernig handhafi fiskveiðiheimildanna taldi sig engar skyldur bera gagnvart samfélaginu, það væri eingöngu mál fyrirtækisins með hvaða hætti atvinnurekstrinum, vinnslunni, væri stýrt, hvort hún væri á Akranesi, í Reykjavík, hvort hann seldi eða leigði, hvort hann hætti vinnslu hér eða þar — taldi sig ekki þurfa að hafa um það samráð við heimafólk eða við kjörna fulltrúa bæjarfélagsins. Formaður verkalýðsfélagsins lýsti því á fundinum að hann teldi að viðkomandi hefði brotið lög varðandi réttindi starfsfólks, samráðsskyldu sem bundin er í lög þegar um hópuppsagnir er að ræða — og ætlar verkalýðsfélagið að fylgja því máli eftir.

Það er líka andrúmsloftið — ég nefni þetta sem dæmi en það sama gerist hringinn í kringum landið. Er það þetta andrúmsloft, þetta kerfi, þessi framkvæmd sem við viljum hafa? Hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði í fréttum í morgun að hann teldi þetta verjanlegt, harmaði þetta en fyrirtæki ættu allan rétt á að gera þetta. Það má vel vera að fyrirtækið telji sig hafa lagalegan rétt sem ég dreg þó í efa. Ég dreg í efa að fyrirtækið hafi rétt til einhliða aðgerða af þessu tagi, ég dreg það stórlega í efa.

Það var líka athyglisvert á fundinum á Akranesi að þar tóku til máls menn sem lýstu því yfir að þeir hefðu áður verið talsmenn og fylgjendur kvótakerfisins þó að þeir hefðu að vísu verið búnir að sjá á því annmarka. Nú þegar málið snertir þá beint á staðnum, félaga þeirra og þeirra nánustu — ég er ekki að segja að það hafi skipt sköpum en fólki virðist þá verða ljóst að kerfið gengur ekki upp. Menn kölluðu eftir gjörbreyttum leikreglum. Einhver sagði að hann gæti ekki ímyndað sér að grasrót neins stjórnmálaflokks gæti nú staðið upp og varið óbreytt kvótakerfi þó svo leiðtogar flokkanna berðust um við það á hæl og hnakka. Þegar við vitnum til umræðunnar á vettvangi, stöðunnar þar, held ég að okkur hljóti öllum að vera ljóst að kerfið sem við höfum búið við getur ekki gengið frá neinni hlið.

Þetta er að gerast vítt og breitt um landið, hvort sem er í sjávarbyggðum á Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Norðvesturlandi, Norðurlandi, Norðausturlandi, og alls staðar eru íbúarnir varnarlausir. Þeir vita ekki nema á morgun verði heimildirnar seldar burt. Upp geta komið allt önnur sjónarmið eins og virtist skína í hjá HB Granda, að einhver lóðamál í Reykjavík og verð fyrir lóðir ráði því hvar fiskvinnslan verður áfram, að það væri ódýrara að láta hús og lóðir standa ónotaðar á Akranesi en í Reykjavík. Ég veit ekki hvort sú er raunin en þessu var haldið fram á fundinum og dapurt ef svo er. Ef einhver er reiðubúinn að verja fiskveiðistjórnarkerfið á þessum grunni þá skil ég ekki hverra erinda hann er að ganga. Alla vega ekki samfélagslegra erinda.

Nú virðast fjármálastofnanir, bankar og stórfyrirtæki í sjávarútvegi bindast samtökum um að þjappa veiðiheimildum saman á hendur æ færri manna og loka fiskvinnslum í skjóli umræðu um niðurskurð á þorskheimildum og hremmingum sem því fylgja, sem er allt of mikil einföldun. Þó að sá niðurskurður sé alvarlegur hefur þetta verið komið í gang áður og er hluti af því kerfi sem hefur verið byggt upp og rekið. Niðurskurður á þorskheimildum hraðar eingöngu og keyrir áfram það kerfi sem fyrir var og dregur enn betur fram ókosti þess og þær hættur sem því fylgja.

Gerð hefur verið ítarleg grein fyrir innleggi okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessa umræðu og hvernig við sjáum þá vinnu fara í gang. Vel má vera að á því megi síðan finna fleiri fleti. Ég þakka hv. þm. Jóni Magnússyni, 10. þm. Reykv. s., fyrir ágæta ræðu en hann tók undir þau sjónarmið sem við höfum lagt fram í þessum málum, að fagna bæri öllu því sem kæmi fram og gæti nýst til þess að breyta kerfinu. Tillagan er flutt af mikilli alvöru hvað varðar þá stöðu sem nú er uppi í sjávarbyggðunum og umgengni og meðferð auðlindarinnar.

Við höfum lagt til hugmyndir um að sjómenn græði hafið. Ég hef í því sambandi vitnað til átaks í landbúnaðinum, hjá Landgræðslunni. Þar höfum við verið í sömu stöðu, landkostir hafa eyðst, beit hefur rýrnað, gróður horfið o.s.frv. Menn eru löngu búnir að sjá að það þýðir ekki að ein miðlæg stofnun annist þetta og svo hagi umhverfið sér með öðrum hætti. Því var gengið til skipulegs samstarfs við bændur um að þeir tækju með formlegum hætti þátt í endurheimt landgæða jafnframt því sem þeir nýttu þau. Mér skilst að nú séu hátt í 700 bændur þátttakendur í verkefninu Bændur græða landið. Sú hugmyndafræði sem liggur þar á bak við er gríðarlega verðmæt fyrir utan verkin sjálf og gjörningana.

Ég hef hugleitt, og við flutningsmenn frumvarpsins, hvort ekki megi nálgast umgengnina, nýtinguna og stjórnunina með svipuðum hætti og gert er í landgræðslunni, þar sem staðbundnar eftirlits- og rannsóknastöðvar leiðbeina bændum og taka með þeim þátt í rannsóknum, meðferð, nýtingu og endurheimt landgæða. Nokkrar slíkar stöðvar eru vítt og breitt um landið eins og stórar sameiginlegir afréttir fyrir ákveðin byggðarlög sem hafa þá rétt til að nýta þær samkvæmt reglum og með sjálfbærum hætti og það er hluti af samningunum um búfjárrækt að svo sé gert. Með sama hætti mætti hugsa sér að ákveðin svæði fyrir ströndum landsins tilheyrðu ákveðnum sjávarbyggðum sem liggja þar að og umgengni, meðferð, nýting og rannsóknir á svæðinu væru í höndum staðbundinna leiðbeininga- og ráðgjafarstofnana sem væru í nánum tengslum við og ynnu með sjómönnum sem ættu hlut að máli. Ég held að sú hugmyndafræðilega nálgun, að hver sýni öðrum nærfærni, sjómennirnir, lífríkið, byggðin, í umgengni við auðlindina, komi í veg fyrir að menn hugsi aðeins um skammtímagróða eins og nú virðist vera stefnan í sjávarútveginum. Sú nálgun er í anda sjálfbærrar þróunar og markar framtíðarsýn fyrir atvinnuveginn um ókomin ár.