135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[17:57]
Hlusta

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því út af fyrir sig að fram skuli fara umræða um það mikilsverða mál sem lýtur að löggjöf og framkvæmd hvað varðar stjórn fiskveiða. Ég mátti til með að koma upp í andsvar við hv. þm. Jón Bjarnason vegna þess að hann vitnaði í orð manna sem flutt voru í gær á lokuðum fundi bæjarstjórnar Akraness með þingmönnum og fleiri aðilum. Ég verð að viðurkenna að það kemur mér mjög á óvart að fluttar séu út af þeim fundi hingað upp í ræðustól á Alþingi beinar tilvitnanir í ræður einstakra manna. Ég leit svo á að þarna væri mjög mikilvægur og nauðsynlegur samráðsvettvangur, samráðsfundur sem bæjaryfirvöld á Akranesi efna til á mikilvægum tíma í atvinnusögu staðarins.

Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að gera mjög alvarlega athugasemd við slíka framgöngu. Ég átti satt að segja ekki von á því að til þeirra orða sem þar féllu yrði vitnað sérstaklega í ræðustól.