135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[18:08]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það sé hárrétt hjá hv. þingmanni að veiðarfærin geta haft gríðarleg áhrif enda höfum við lagt á það áherslu og flutt frumvarp um verndun lífríkis á hafsbotni. Það hafa því verið flutt hér mál einmitt sem lúta að þessu atriði af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Í þessu máli segjum við fyrst og fremst: Bíðum við. Við skulum setja sólarlagsákvæði í þetta fiskveiðistjórnarkerfi. Það gengur ekki upp. Við opnum síðan leið að því hvernig skuli nálgast vinnu við endurskoðun þess. Við leggjum upp ákveðnar forsendur. Stefna okkar er mjög skýr, bæði í sjávarútvegsmálum og öðrum þingmálum sem hafa verið flutt. Við þurfum ekki endilega alltaf að tyggja upp stefnu okkar hér þótt hún sé góð og nefna eigi hana sem oftast.

Frumvarpið sem við flytjum nú opnar að okkar mati á víðtæka vinnu þar sem allir koma með sitt inn og reynt yrði ná sátt á besta þekkingargrunni sem til er og endurskoða málið. Það verður þó aldrei gert í eitt skipti fyrir öll. Lífríkið er sem betur fer fjölbreytilegt og þróast áfram til næstu ára þannig að sú umgengni, sú nærfærni við lífríkið er eilíf.