135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[18:25]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er nú farinn að sjá eftir því að hafa kallað eftir stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (Gripið fram í.) vegna þess að hún kemur hér upp í mörgum ræðum og fleiri en hægt er að leggja eyrun við.

Ég held að það þurfi ekkert að koma á óvart að kallað sé eftir þeirri stefnu miðað við þær 11 greinar sem hér eru taldar upp sem markmið endurskoðunarinnar vegna þess að þær greinar stangast hver á við aðra. Og þess vegna spyr maður: Er þetta tilraun til þess að ná einhvers konar málamiðlun eða kalla öll sjónarmið inn í þetta samstarf eða lýsir þetta stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs? Niðurstaða mín er sú að það sé hvort tveggja. Vissulega sé auga haft á einhverjum sjónarmiðum sem ekki eru sjónarmið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en síðan lýsi einmitt þessir 11 partar, og það styður síðasti hv. þingmaður sem hér talaði með því að lesa upp úr greinum eftir sjálfan sig sem svipar mjög til þess arna, þversögninni í stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í sjávarútvegsmálum, að þeir ætla annars vegar að hafa fulla hagkvæmni í sjávarútveginum og ætla honum að vera undirstöðuatvinnugrein en hins vegar ætla þeir honum að vera jafngildi einhvers konar byggðastyrkja og byggðaaðstoðar og félagsmálastofnun svo á þriðja vængnum. Þetta gengur því miður ekki upp.

Ég fagna því hins vegar að hér hefur komið fram að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur sett fram fyrningarleið, ákveðna útgáfu af fyrningarleið. Ég tek eftir því að hún er hætt að leggja áherslu á byggðakvóta en ég spyr enn eins og aðrir hafa spurt: Hvað um stefnuna um suman afla á markað, sem mér þykir ekki ganga fullkomlega upp, hvorki í útgáfunni sem hún er höfð í þessari greinargerð né í þeim lestri sem (Forseti hringir.) hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þuldi upp úr sjálfum sér áðan?