135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[18:28]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ákaflega gagnlegt að fá hv. þm. Mörð Árnason upp í andsvör og þessi andsvör virðast ætla að verða framlag Samfylkingarinnar til þessarar umræðu. Það var athyglisvert hvernig hv. þingmaður gat haft allt á hornum sér, fyrst gagnvart frumvarpinu og málflutningi þeirra sem að því standa en síðan út í ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem næstur kom og talaði á móti frumvarpinu. Þetta fannst mér nú talsverð snilld, að geta verið önugur og haft allt á hornum sér út í ræður sem komu sín úr hvorri áttinni í málinu.

Ef við værum að bjóða öðrum flokkum til samstarfs um heildarendurskoðun sjávarútvegsstefnunnar en tækjum fram að það yrði að vera algerlega á okkar forsendum, til hvers væri það þá? Er það það sem hv. þm. Mörður Árnason ætlast til og er að biðja um og er hann kannski óánægður með að við skyldum ekki bara afgreiða málið þannig? Það getur auðvitað hvaða flokkur sem er komið hér með sínar ýtrustu kröfur og sagt: Komið þið nú með okkur í vinnu, við skulum endurskoða lögin en á okkar forsendum, það verður algerlega að vera á þeim forsendum sem við sjáum fyrir okkur í þessu máli. Auðvitað þýðir það ekki neitt. Ef menn ætla að fara í þessa vinnu frá grunni og eru tilbúnir til að gefa upp á nýtt í íslenskum sjávarútvegsmálum verða allir að setjast óbundnir að því borði. Það þýðir ekki að þeir komi stefnulausir þangað, það þýðir ekki að þeir geti ekki lagt sínar áherslur í púkkið, þeir sem hafa þær. Það er þetta sem ég vonast til að hv. þm. Mörður Árnason fáist til að viðurkenna.

Ég tel að það sé engin mótsögn í því og mér finnst dapurlegt að heyra hv. þingmann tala eins og það hljóti sjálfkrafa að vera mótsögn að leita leiða til að gera rekstur sjávarútvegsins hagkvæman og hins vegar að innleiða eitthvert réttlæti í þetta kerfi, eitthvert öryggi t.d. fyrir fólkið í sjávarbyggðunum. Það þarf engin mótsögn að felast í því. Til dæmis með því að byggðatengja ákveðinn hluta réttindanna og það er okkar stefna, þannig er hún útfærð, og við höfum gert ráð fyrir því að ef við gætum undið ofan af kerfinu og (Forseti hringir.) endurráðstafað nýtingarréttinum yrði einn þriðji hluti hans byggðatengdur.