135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[18:32]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þá væri gaman að vita hvað Samfylkingin er að gera í stjórnarsamstarfinu til að koma þessari stefnu sinni fram. Ég hef lítið frétt af því. Ég heyri það ekki á hæstv. sjávarútvegsráðherra að það bóli mikið á því.

Ég vísa því einfaldlega til föðurhúsanna að einhverjar sérstakar og augljósar mótsagnir séu í nálgun okkar í þessum efnum. Ég mótmæli því einfaldlega. Það er grundvallarmisskilningur hjá hv. þingmanni. Ég veit ekki hvernig hann nálgast hlutina. Telur hann að þetta þurfi í öllum tilvikum að vera allt eða ekkert, annaðhvort eða. Hv. þingmaður skilur ekki þá útfærslu að allur afli sem ekki fer beint til vinnslu hjá sama aðila skuli fara yfir markað. Verður það að vera svo að annaðhvort allur fiskur eða enginn fiskur fari á markað?

Á það að vera eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson ræddi um varðandi botntrollið, annaðhvort alfarið að banna það eða leyfa það í óbreyttri mynd? Er ekki til einhver millivegur? Er ekki t.d. hægt að friða ákveðin svæði fyrir botnveiðum, kóralsvæðin t.d.? Eru menn ekki loksins að manna sig upp í það að sýna lit í þeim efnum, a.m.k. hvað varðar kóralsvæðin fyrir austan og þó fyrr hefði verið.

Það er þannig með sjávarútvegsstefnuna að samþætta þarf í henni mörg markmið og ekkert eitt þeirra á að ríkja yfir öllum hinum. Hagkvæmni, að sjálfsögðu þarf að hafa hana í huga og að leiðarljósi, að atvinnureksturinn geti verið hagkvæmur og arðbær og einhver nenni að standa í honum. En það þarf að huga að fleiru, t.d. því að nýtingin sé sjálfbær og við göngum ekki í nafni hagkvæmni á auðlindina þangað til hún verður að engu. Þar erum við strax komin með tvö veigamikil markmið sem verður að samþætta í stefnunni. Það á ekki að nálgast þau þannig að þetta séu mótsagnir. Það er heldur ekki mótsögn í því að leita hagkvæmra leiða í rekstri og leiða réttlætis, atvinnuöryggis og treysta um leið forsendur byggða. Það má ekki vera þannig því að þá erum við að gefast upp.