135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[18:34]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Fiskvinnsla án útgerðar hefur ekki sama aðgang að hráefni og fiskvinnsla í samkeppnisútgerð. Þess vegna er ekki hægt að taka mark á tillögum Vinstri grænna um fiskmarkaði, að allur fiskur sem ekki fer inn í fiskvinnslu fari inn á markað. Hann gerir það í dag, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Sú vinnsla sem er að kaupa fisk af sjálfri sér selur þann fisk sem hún vill ekki nýta á markað. Það er bara þannig. Þannig er raunveruleikinn.

Samkeppnisstaða fiskvinnslu án útgerðar við fiskvinnslu með kvóta er ójöfn á meðan þeir eru ekki skuldbundnir til að setja allan fiskinn á fiskmarkað. Það væri strax spor í rétta átt, ef allur fiskur færi á fiskmarkað og mundi jafna stöðu fiskvinnslu án útgerðar og annarrar fiskvinnslu í landinu.

Aflagjald til hafna markast af fiskverði. Hafnargjöld eru prósenta, 1,28% er aflagjald. Ef aflagjald af bát sem er í eigin vinnslu er bara 130 kr. fyrir kíló af þorski en svo getum við sett fiskinn á markað á sama tíma fyrir 230 eða jafnvel 300 kr. þá er verið að borga helmingi fleiri krónur af bátnum sem landar öllu á fiskmarkað. Ég nefni þetta vegna þess að í gangi eru mótvægisaðgerðir vegna stöðu hafna. Þetta hefði hjálpað höfnum landsins verulega, svo ekki sé minnst á launakjör sjómanna þegar skipt er úr á 130 kr. í 260 kr. eða kannski 350 kr. eins og fiskmarkaðsverð hefur verið á síðustu mánuðum. Þetta skiptir ekki hvað síst máli þegar talað er um þetta.