135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[18:36]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé ekki rétt að segja að allur fiskur sem ekki fer beint til vinnslu hjá sama aðila í landi fari á markað. Það fer einfaldlega heilmikið af fiski beint frá útgerð í gámum til útlanda inn í erlendar fiskvinnslur. Að því hráefni kemst innlend fiskvinnsla aldrei því að það er aldrei boðið til sölu innan lands. (GMJ: Jú, jú.) Nei, það er bara ekki þannig. Það fer þó nokkuð af fiski, hefur a.m.k. gert það á undanförnum árum. Þetta hef ég rætt við marga í fiskvinnslu og við þá sem eru þaulkunnugir mörkuðunum. Eftir því sem hráefnið sem fer á markað hefur farið minnkandi undanfarin missiri þá hafa menn m.a. bent á þetta. Það mundi strax laga þeirra stöðu ef svona regla væri sett inn.

Svo vil ég spyrja hv. þingmann: Væri þetta a.m.k. ekki til bóta frá núverandi ástandi? Ég held að það hljóti að vera. Af hverju leggjum við ekki til að allur fiskur fari á markað? Jú, það er metið svo af lögfræðingum og þeim sem vel til þekkja að það orki mjög tvímælis að hlutast þannig til um innri rekstrarákvarðanir í einu og sama fyrirtækinu. Ef maður á skip, veiðiheimildir og vinnslu í landi og miðar útgerð sína alfarið við að fóðra sína vinnslu, getur Alþingi þá gripið inn í og sagt við hann: Nei, góði, þú mátt ekki landa í þína vinnslu? Þú verður að setja þann fisk á markað.

Ég vil a.m.k. að hv. þingmaður svari mér þá því: Telur hv. þingmaður hægt að ganga svo langt að grípa inn í að því leyti? Ef menn telja að það sé lagalega fært, réttlætanlegt og pólitískur möguleiki þá höfum við ekki hafnað slíku. En það er þessi algeri aðskilnaður sem menn hafa stundum talað um.

Ég held að ég hafi aðallega verið sammála öðrum atriðum sem hv. þingmaður tók upp og við þeim þarf ekki svör af minni hálfu. Við erum algerlega sammála um að skoða aðstöðumun landvinnslu og sjóvinnslu. Það þarf líka að skoða aðstöðumun, flutning á óunnum fiski til útlanda gagnvart stöðu vinnslunnar hér heima, ekki síst eftir að kvótaskerðingarálagið er fallið niður. Þar er innbyggður aðstöðumunur, allt vísar í þá átt, og hann er ósanngjarn.