135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[18:43]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Fyrr í dag fór fram umræða utan dagskrár um atvinnuástandið á Akranesi í framhaldi af hópuppsögnum og alvarlegu atvinnuástandi sem þar hefur skapast vegna lokunar á fiskvinnslu í HB Granda. Ég hafði það á tilfinningunni að menn væru að ræða þetta út frá þeirri forsendu að ástandið væri orðið alvarlegt á Akranesi vegna skerðingar á þorskkvóta, vegna þess að fyrirtækið hefði þurft að skera niður starfsemi sína uppi á Skaga vegna minni þorskkvóta og skerðingarinnar frá því í haust. Hinn dapurlegi sannleikur er auðvitað sá að þetta ástand er afleiðing af kvótakerfinu, af fiskveiðistjórnarkerfinu í heild sinni. Þetta atvinnuástand er afleiðing af því kerfi sem við höfum búið við og hefur verið til umtals í þinginu í dag og nú liggja hér fyrir tvö mál sem bæði snerta fiskveiðistjórnarkerfið. Annars vegar það mál sem við erum að tala um núna, frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og hins vegar tillaga til þingsályktunar um breytta stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Fiskveiðistjórnarkerfið er svo sannarlega enn á dagskrá.

Það er kunnara en frá þurfi að segja hver afstaða mín hefur verið til þess stóra máls á undanförnum árum. Ég hef gagnrýnt gegnum þykkt og þunnt þá sérhagsmunagæslu og þau sérréttindi sem voru á kostnað jafnræðis og jafnréttis og stóðu að baki hugsuninni og hugmyndinni um það kerfi sem við búum við. Afsal á sameign þjóðarinnar var rangt á siðferðislegum, jafnræðislegum og pólitískum forsendum. Þar til viðbótar hefur kerfið meira og minna mistekist að því leyti að stofnarnir hafa hrunið, skuldirnar hafa hækkað, byggðarlög hafa lagst í eyði eða orðið fyrir verulegri fólksröskun og fólki í þessari atvinnugrein hefur verið sagt upp í stórum, stórum stíl. Afstaða mín til þessa fiskveiðistjórnarkerfis hefur ekkert breyst. Ég tel frjálsa framsalið og gjafakvótann vera kannski stærstu meinsemdirnar og tel það vera bæði ranglátt og skaðlegt.

Nú hefur það gerst að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur kveðið upp álit sitt í máli sem höfðað var fyrir hönd tveggja einstaklinga sem höfðu sótt sjó án þess að hafa kvóta og þeir hlutu sektir og dóma fyrir þá gjörð sína. Mannréttindanefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið á þessum einstaklingum og málið er nú til meðferðar hjá stjórnvöldum, að mér skilst, um það hvernig bregðast eigi við þessu áliti og er jafnvel ýjað að því að ekki sé nein þörf eða krafa um það eða skylda af okkar hálfu að hlýða þessari niðurstöðu mannréttindanefndarinnar. Ég er á þeirri skoðun að það eigi að taka þetta álit eða þennan dóm mjög alvarlega, ég lít svo á að það sé skuldbindandi fyrir íslensk stjórnvöld og það eigi ekki að virða álitið að vettugi. Að því leyti get ég lýst yfir samþykki mínu við tillögu til þingsályktunar um breytta stjórn fiskveiða í samræmi við þennan úrskurð og tel það vera eðlileg viðbrögð að við hlítum niðurstöðu nefndarinnar.

Ég get líka lýst yfir stuðningi og skilningi a.m.k. á þeirri tillögu sem hér er komin fram af hálfu vinstri grænna að því leyti að fiskveiðistjórnarkerfið verði tekið til gagngerðrar endurskoðunar og að mikið verði lagt í þá skoðun. Það er hægt er að rífast um einstaka hluti, eins og við höfum hlustað hér á endalaust í dag, en kjarni málsins er sá að þetta kerfi þarf endurskoðunar við, enda er þess getið í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að gerð verði sérstök athugun á reynslunni af aflamarkskerfinu við stjórn fiskveiða og áhrifum þess á þróun byggða. Þetta er auðvitað yfirlýsing sem gerð var og liggur fyrir frá því að ríkisstjórnin var mynduð og er í eðli sínu það sama og verið er að tala um hér í dag, að gerð verði sérstök athugun á aflamarkskerfinu með hliðsjón af áhrifum þess á þróun byggða o.s.frv. Þetta eru frekar keimlíkar tillögur að því leyti til að farið er fram á gagngera endurskoðun í þeim báðum. (Gripið fram í: Er þetta komið í gang?) Það verða aðrir að svara fyrir, hv. þingmaður, mér er alls ókunnugt um það en veit ekki betur en að það sé í undirbúningi eins og annað sem stendur í stjórnarsáttmálanum og verður áreiðanlega staðið við það.

Hvað vill Samfylkingin? spurði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Það er mjög auðvelt og einfalt að svara því. Við í Samfylkingunni höfum verið með þá stefnu í stórum dráttum að taka ætti upp fyrningarleiðina, að staðfesta eigi og viðurkenna að fiskimiðin og auðlindin í hafinu sé þjóðareign og að greitt sé eðlilegt gjald fyrir afnotaréttinn af þeirri auðlind. Þetta er stefna Samfylkingarinnar og hún hefur ekkert breyst svo ég viti til.

Hins vegar horfumst við náttúrlega í augu við þá staðreynd að Samfylkingin gekk til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn á síðasta ári og þá rataði ekkert annað að því er lýtur að fiskveiðum inn í þann stjórnarsáttmála en sú setning sem ég nefndi áðan. En eins og veraldarvanir og þaulreyndir alþingismenn átta sig á er ekki allt fengið þegar gengið er til samstarfs við aðra flokka. Við vitum það vel að ekki er meiri hluti fyrir því í þinginu að kollvarpa fiskveiðistjórnarkerfinu eins og það liggur fyrir í dag. Við heyrðum fyrr í þessari umræðu í hv. þm. Jóni Gunnarssyni þar sem hann lýsti sjónarmiðum sjálfstæðismanna og Sjálfstæðisflokksins að því er ég best skil og reikna með. Við áttum okkur líka á því að Framsóknarflokkurinn, sem hér á allmarga þingmenn, hefur verið hugmyndasmiður og eigandi þessa fiskveiðistjórnarkerfis og hefur ekki verið til viðtals um að breyta því kerfi. Þetta er hin pólitíska staðreynd sem blasir við. Það er alveg sama hvað við, andstæðingar gjafakvótans, flytjum hér heitar og góðar ræður við breytum engu um það meðan hinn pólitíski veruleiki er sá að það skortir meiri hluta í þinginu til að breyta kerfinu, enda er hér raunar ekki verið að gera tillögur um það í sjálfu sér hvernig eigi að breyta því, heldur viljum við að það verði tekið til endurskoðunar í ljósi þeirrar staðreyndar að kerfið hefur brugðist að því er varðar fiskstofnana og að því er varðar byggðirnar svo eitthvað sé nefnt.

Herra forseti. Hvernig vinna á úr þessari stöðu er auðvitað álitamál. Ég er þeirrar skoðunar að á þessu stigi málsins sé rétt og skynsamlegt að bregðast við úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna með því að opna kerfið og veita aðgengi að kvótanum og nálgast þetta mál út frá þeirri pólitísku stöðu sem við erum í. Ég fyrir mitt leyti mun halda áfram að tala gegn þessu kerfi og benda á aðrar leiðir, benda á staðreyndir og afleiðingar sem kerfið hefur haft í för með sér og svo verður það náttúrlega að ráðast hvort það ber árangur eða ekki.