135. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2008.

störf án staðsetningar -- kostnaður við Kárahnjúkavirkjun.

[13:31]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Mig langar til að vekja athygli á máli sem snertir byggðamál og að nokkru leyti þá umræðu sem fór fram í gær um staðsetningu starfs ferðamálastjóra. Í þeirri umræðu nefndi hæstv. byggðamálaráðherra að margt væri þar vel gert og þar á meðal að nú væri eitt af opinberum háum störfum auglýst sem starf án staðsetningar. Ég vil gera nokkra athugasemd við þann skilning vegna þess að hér er væntanlega verið að vísa til starfs framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs sem er reyndar orðað svo í auglýsingu að sé starf án staðsetningar en í fundargerð Vatnajökulsþjóðgarðs segir, með leyfi forseta:

„Er það sameiginlegur skilningur stjórnarmanna að það þýði að framkvæmdastjóri verði staðsettur í einu af þeim átta sveitarfélögum sem eiga land að þjóðgarðinum eða á höfuðborgarsvæðinu.“

Það virðist vera að nota eigi hugtakið „starf án staðsetningar“ þannig að höfuðborgin t.d. hafi sérstöðu og svæðið Búðardalur sem sagt enga stöðu, þannig að þetta er ekki starf án staðsetningar. En það sem verra er er að hér er greinilega verið að taka störf sem menn hafa bundið miklar vonir við á landsbyggðinni, í þessu tilfelli Skaftfellingar varðandi hinn glæsta Vatnajökulsþjóðgarð sem er kannski eitt það merkasta og dýrmætasta sem við erum að byggja upp í því héraði og veitir sannarlega ekki af, og nota það til að stofna fleiri há embætti á Reykjavíkursvæðinu. Ég verð fyrir töluverðum vonbrigðum með að þetta mál skuli vera í þessum farvegi og hef rætt þetta við stjórnarmenn í Vatnajökulsþjóðgarði og þar er það raunar svo að skilningur manna eftir þá fundi er mun dapurlegri en hér kemur fram vegna þess að þar er skilningur manna að starfið verði hvergi staðsett nema á Reykjavíkursvæðinu, þ.e. að öll átta sveitarfélögin í kringum Vatnajökulsþjóðgarð teljist allsendis óhæf til að hýsa þetta svæði.

Ég spyr hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, formann þingflokks Samfylkingar og þingmann Skaftfellinga, hvort hann telji þetta í anda þess sem ætlað var með hugtakinu störf án staðsetningar.