135. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2008.

stjórnarskipunarlög.

134. mál
[14:23]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé ríkur vilji hjá þingmönnum til þess að takmarka svigrúm til setningar bráðabirgðalaga. Sá þingvilji kom skýrt í ljós árið 1991. Ég held að það sé almenn skoðun að menn eigi að fara sér mjög gætilega við beitingu þess ákvæðis. Hins vegar er það svo að það koma upp aðstæður, eins og mér fannst hv. þingmaður reifa í lok sinnar ræðu, sem gera það hugsanlega nauðsynlegt að slíkt ákvæði sé fyrir hendi.

Hins vegar vil ég algjörlega mótmæla því sem hv. þingmaður sagði um aðkomu hæstv. viðskiptaráðherra að þessu máli. Það er með öllu útilokað að ætla að klína einhverju máli á hæstv. viðskiptaráðherra einan og sér vegna þess að þetta tengist hans kjördæmi. Það var öll ríkisstjórnin sem lagði þetta fram, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra og sá sem hér stendur. Það hefur einungis með það að gera að málið, sökum raffangaeftirlitsstarfsemi sem fellur undir það ráðuneyti, að það var hæstv. viðskiptaráðherra sem lagði það fram. Það hefði þess vegna getað verið einhver annar. Ég vil bara að það komi alveg skýrt fram að það var ekkert honum neitt sérstakt kappsmál umfram aðra í ríkisstjórninni, og sá sem hér stendur ber nákvæmlega sömu ábyrgð á því og aðrir í ríkisstjórninni.

Að öðru leyti vil ég segja að ég er sammála því sem kemur fram varðandi þau atriði sem reifuð eru í 2. og 3. gr. þessa frumvarps. Ég hef áður sagt að ég tel eðlilegt að skerpa skilin á milli löggjafar- og framkvæmdarvaldsins með því að ráðherrar láti tímabundið af þingmennsku meðan þeir fara með handhöfn framkvæmdarvaldsins. Ég hef skýrt það áður hér í lengra máli og ætla ekki að halda langa ræðu um það en ég vil lýsa stuðningi við þetta viðhorf eins og ég hef áður gert úr þessum stól.

Sömuleiðis er ég þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að sá sem samþykkti stjórnarskrána upphaflega sömuleiðis hafi síðasta orðið um það þegar henni er breytt. Ég skil það þá þannig hjá hv. þingmanni að hann sé sammála mér um það ef slík breyting yrði tekin upp. Þá þyrfti ekki nema samþykkt eins Alþingis og síðan þetta fyrirkomulag. En það yrði ekki tekið aftur (Forseti hringir.) til samþykktar á Alþingi.