135. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2008.

stjórnarskipunarlög.

134. mál
[14:29]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki miklu að svara annað en ég bara fagna því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra um stöðu þess ákvæðis frumvarpsins sem fjallar um þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskránni. Það er greinilegt að það er þá ríkur vilji — eða var það fyrir síðustu alþingiskosningar — ríkur vilji hjá Alþingi og stjórnmálaflokkunum til þess að breyta stjórnarskránni í þessa veru. Ég vil því hvetja hann og ríkisstjórnina til þess að beita sér fyrir því að haldið verði áfram að undirbúa breytingu á stjórnarskránni í þá veru á þessu kjörtímabili og samhliða því þarf auðvitað að taka ákvörðun um og setja löggjöf um framkvæmdina á slíkri atkvæðagreiðslu. Þetta væri hægt að gera núna á þessu kjörtímabili og haga því svo til að breytingarnar gangi í gildi fyrir næstu alþingiskosningar þannig að sú breyting sem þá yrði gerð á stjórnarskránni þyrfti auðvitað að fara samkvæmt gildandi leið fyrir þingkosningar og verða samþykkt af nýju þingi eftir þær kosningar.