135. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2008.

stjórnarskipunarlög.

134. mál
[14:30]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er jafnan svo á hverju þingi að lögð eru fram nokkur frumvörp til breytinga á stjórnarskránni, frumvörp til stjórnarskipunarlaga, og er þeim jafnan vísað til sérnefnda sem fjalla um þessi mál. Í reynd þýðir flutningur þessara mála að viðkomandi þingmenn vilja leggja áherslu á sjónarmið sín gagnvart tilteknum atriðum í stjórnarskránni, væntanlega þá með það fyrir augum að til slíkra sjónarmiða sé tekið tillit við þá stjórnarskrárvinnu sem verið hefur meira og minna í gangi áratugum saman. Ég lít svo á að þetta frumvarp og önnur sambærileg sem hér er verið að ræða í dag og á næstu dögum séu efniviður í þá vinnu.

Eins og ég útskýrði hér skömmu fyrir jólahlé er ekki endanlega búið að ákveða hvaða tilhögun verður varðandi framhald á vinnu stjórnarskrárnefndarinnar sem starfaði á síðasta kjörtímabili. Við höfum nokkur hér í salnum reynslu af setu í þeirri nefnd. Hún gerði að sjálfsögðu margt gott og eftir hana liggur heilmikið starf en eftir á að ákveða hvert framhaldið á því verður. Eina tillagan sem þaðan kom, eins og menn muna frá síðasta þingi, lokaþingi fyrir kosningar, var einmitt um skylt atriði og er þriðja atriðið í frumvarpi hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar og fleiri, þ.e. um það að breytingar á stjórnarskrá skuli ganga til endanlegrar samþykktar við þjóðaratkvæðagreiðslu. Eins og við munum urðu önnur atvik til þess í þinginu á liðnu vori að sú tillaga náði ekki fram að ganga en hún heldur að sjálfsögðu gildi sínu og var flutt sameiginlega af fulltrúum allra flokka úr nefndinni. Það vil ég segja almennt um þessi mál.

Auðvitað eru frumvörp sem þessi og hugmyndir sem fram koma í frumvörpum sem þessum gagnlegar og góðar til umræðu í þingsalnum og til undirbúnings frekari úrvinnslu í stjórnarskrárnefnd. Ekki er þess að vænta að frumvarp af þessu tagi hljóti samþykki og að þing verði rofið í kjölfarið og efnt til alþingiskosninga. Ég hygg að flestir flutningsmenn geri sér grein fyrir því að það sé ólíklegt.

Varðandi efnisatriði þau sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson mælti fyrir, vildi ég aðeins fá að fjalla um þau í örfáum orðum. Í fyrsta lagi er lagt til að heimild til útgáfu bráðabirgðalaga verði felld brott. Um það urðu nokkrar umræður í haust þegar til staðfestingar kom bráðabirgðalagafrumvarp sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni og varðaði rafföng á Keflavíkurflugvelli. Þá var því haldið fram af a.m.k. einum þingmanni að sá gjörningur fengi ekki staðist. Sá þingmaður, hv. þm. Atli Gíslason, situr í þingsalnum en ég er þeirrar skoðunar að gjörningurinn hafi fyllilega staðist, ella hefði ekki verið ráðist í að gefa út bráðabirgðalög. Ég hafði ekki hugsað mér að ræða einstök mál af þessu tilefni en hins vegar ákvað Alþingi árið 1991, þegar þessi ákvæði í stjórnarskrá voru rækilega endurskoðuð og mörgum breytt, að ekki skyldi felld brott heimild til útgáfu bráðabirgðalaga sem verið hefur í stjórnarskrá frá upphafi, að ég hygg. Það gerðist ekki þrátt fyrir að samgöngur hafi batnað með þeim hætti sem við þekkjum öll og þrátt fyrir að Alþingi komi oftar saman og sitji lengur en áður og fjarskipti öll séu með allt öðrum hætti en áður var. Stundum getur reynst óhjákvæmilegt að beita þessu valdi og þess vegna er nauðsynlegt að það sé fyrir hendi.

Hins vegar er það líka staðreynd að þeim tilvikum þar sem bráðabirgðalög eru sett hefur fækkað mjög frá 1991. Ég minnist þess t.d. árið 2001 eftir árásina á tvíburaturnana í New York að sett voru í skyndingu bráðabirgðalög rétt áður en Alþingi kom saman til að unnt væri að tryggja að flugfloti landsmanna, sem var þá og er enn mikill og stór, gæti keypt nauðsynlegar tryggingar til að geta haldist á lofti eða í starfsemi. Ekki var um annað að ræða á þeim tíma en að gefa út bráðabirgðalög til þess að veita bakábyrgð ríkisins fyrir því. Ábyrgðin var, að mig minnir, upp á 3 þúsund milljarða kr. og þessi ákvörðun var því ekki auðveld fyrir þáverandi fjármálaráðherra. Sem betur fer voru taldar litlar líkur á því að á bakábyrgðina reyndi og svo varð heldur ekki. Lögin sem Alþingi staðfesti síðan þurfti svo að framlengja með bráðabirgðalögum milli jóla og nýárs það ár vegna aðstæðna sem þá komu upp. Ég nefni það sem dæmi eins og ég gerði í haust um bráðabirgðalagaútgáfu sem komið hefur mjög flatt upp á fólk en það var vegna mjög sérstakra og óeðlilegra aðstæðna.

Hvað sem því líður sem sagt hefur verið hér um nýjustu bráðabirgðalögin eða þau næstu þar á undan út af laxveiði, er það ekki síst vegna mála eins og þessara sem ég gat um varðandi tryggingamál flugfélaganna sem það er algerlega bráðnauðsynlegt að hafa þessa heimild fyrir hendi að mínum dómi. Auðvitað á að fara varlega með hana eins og gert hefur verið. Henni er mjög sjaldan beitt nú orðið og á þá ekki að þvælast fyrir neinum.

Varðandi 2. gr. frumvarps þingmannsins og félaga hans um að ráðherrar megi ekki vera alþingismenn þá rakti hann sjálfur veigamikil rök gegn því að fara þá leið að þingmenn víki tímabundið úr sæti og inn komi varamenn í staðinn en það hefur verið meginhugmyndin í þessu máli. Það mundi þýða að í stað þeirra 12 ráðherra sem nú sitja í ráðherrastólum kæmu 12 vaskir varaþingmenn inn í þingið og myndu taka sæti í nefndum og fullan þátt í umræðum. Með öðrum orðum hefðu í raun bæst 12 nýir þingmenn við stjórnarliðið. Það er kannski ekki það sem við þurfum helst núna. Hins vegar er auðvitað mikilvægt að ræða svona mál og það varðar að hluta til skiptinguna á milli löggjafar- og framkvæmdarvalds. Segja má sem svo að skýrari skil séu þar á milli ef ráðherrar hafa ekki atkvæðisrétt á Alþingi. Þó er hægt að gera það með þeim hætti að ekki fari í bága við þingræðisregluna ef ráðherrar starfa í skjóli eða á grundvelli meiri hluta á Alþingi. Við munum mörg að ágætur hugsjónamaður flutti á sínum tíma frumvarp um að kjósa skyldi forsætisráðherrann beinni kosningu. Það var Vilmundur heitinn Gylfason. Hann byggði hugmyndir sínar m.a. á því sem tveir þáverandi þingmenn og prófessorar, þeir Ólafur Jóhannesson og Gylfi Þ. Gíslason, höfðu skrifað að mig minnir árið 1946 um þessi mál. Það má auðvitað hugsa sér þannig fyrirkomulag. Það er þá líkt því sem gerist í Bandaríkjunum. Þá er ekki lengur byggt á þingræðisreglunni vegna þess að forsætisráðherrann gæti starfað óháð því þótt hann ætti síðan undir þinginu hvort hann kæmi frumvörpum fram. Við sjáum í hendi okkar ýmis vandkvæði sem gætu skapast af þessu, t.d. varðandi afgreiðslu fjárlaga og annarra mikilvægra þingmála.

Við höfum búið við það kerfi sem við þekkjum hér um mjög langa hríð, alveg frá því að Íslendingar fengu innlendan ráðherra fyrir meira en 100 árum. Það byggir, eins og við þekkjum, á danskri fyrirmynd og hefur gefist ágætlega en auðvitað yrði það til að auðvelda starf ráðherranna ef þeir þyrftu t.d. ekki að passa upp á að mæta í atkvæðagreiðslur og þess háttar. Þeir gætu einbeitt sér að því að vera hér eingöngu þegar þeirra eigin mál væru til umræðu en annars verið á hinum vinnustaðnum sínum í Stjórnarráðinu og sinnt málum þar. Það er að mörgu leyti ákveðinn sjarmi yfir íslenska þinginu sem fylgir því að ráðherrarnir verða að gefa fleiru gaum en bara því sem þeir eru persónulega ábyrgir fyrir og taka t.d. fullan þátt í störfum þingflokka. Ekki er þó hægt að fletta því neins staðar upp í handbók og spyrja hvaða fyrirkomulag sé best í þessum efnum. Það er misjafnt eftir löndum og mismunandi reynsla er af því fyrirkomulagi sem ýmsar þjóðir hafa. Ég tel að okkar fyrirkomulag hafi gefist vel og auðvitað er staðreynd að ráðherrarnir hér, a.m.k. þeir sem eru formenn stjórnmálaflokka, eru líka forustumenn í þinginu. Þó að tilhneiging sé til að draga eða gera lítið úr þeim þætti málsins þá er það eigi að síður staðreynd.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frumvarpið. Ég fagna því að umræður séu um stjórnarskrármálefni með reglulegum hætti í þinginu en síðan þurfa forustumenn stjórnmálaflokkanna, bæði þeirra sem eru í ríkisstjórn og hinna, að koma sér saman um áður en langt um líður á þessum vetri hvert framhaldið eigi að vera á vinnu varðandi endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég hugsaði með mér eftir kosningar að kannski væri ágætt að láta málið hvíla aðeins eftir þann sprett sem tekinn var í því rétt fyrir kosningar eða í febrúar og mars á síðasta ári. Staðreyndin er jafnframt sú að ekki er raunhæft að koma neinu fram fyrr en skömmu fyrir kosningar. Mín hugmynd var því sú að hvíla það mál aðeins og leyfa mönnum að kasta mæðinni en síðan þarf auðvitað að endurskipuleggja það með einhverjum hætti og koma því í vinnslufarveg á nýjan leik, hvenær svo sem tímabært þykir að gera það. Um það þarf að fjalla meðal formanna flokkanna sem síðan ræða það hver í sínu baklandi.