135. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2008.

stjórnarskipunarlög.

134. mál
[14:48]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að hafa tekið eftir því að ég taldi óraunhæft að reikna með að tveir þriðju hlutar þingmanna samþykktu þá tillögu sem hefur verið dreift af minni hálfu. Það er rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að ósennilegt er að þingið sem situr á þessu starfsári samþykki þessa tillögu til þess síðan að leysa sjálft sig upp. Það er einmitt eitt af því sem gæti fylgt breytingum á stjórnarskrá af því tagi sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og fleiri flytja, að þessum tillögum væri einmitt safnað saman til að fara síðan af stað í lok kjörtímabils eða við þingrof að öðru leyti í þá atkvæðagreiðslu sem eðlilegt er að fylgi þingkosningum, a.m.k. samkvæmt þeim hugmyndum sem hæstv. iðnaðarráðherra lýsti áðan úr stjórnarskrárnefnd.

Ég tel af reynslu undangenginna ára að hæstv. forsætisráðherra ætti að beita sér fyrir því, og spyr hann um það, að losa ýmis þörf framfaramál sem varða stjórnarskrána úr þeirri herkví sem þau eru í og stendur um allt önnur atriði stjórnarskrárinnar en við erum hér að tala um. En þetta bíður allt saman og myndar hér heilmikinn vatnsmassa, tillögumassa, á bak við þá stíflu sem fyrir hendi er og allir kannast við um nokkur einstök atriði sem menn hafa ekki getað komið sér saman um á þinginu og í samfélaginu. Ég tel þetta óheppilegt og skora hér með á hæstv. forsætisráðherra að brjóta þessa herkví upp og hefja umræður um þau mál sem við getum verið sammála um.