135. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2008.

stjórnarskipunarlög.

134. mál
[14:50]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel ekki rétt að tala um einhverja sérstaka herkví í þessu sambandi eða vatnsmassa sem hafi safnast upp. Málið er það, óháð því sem hv. þingmaður segir, að jafnvel þó um það sé samkomulag að gera tilteknar breytingar eða taka tiltekin atriði inn í stjórnarskrána, eins og sérstaka vernd íslenskrar tungu eða önnur slík atriði, þá verður það ekki gert svo raunhæft sé að reikna með fyrr en í lok kjörtímabils og þá er eðlilegt að safna öllu slíku saman og því sem um er samkomulag. En það er hægt að gera það án þess að tekið sé á einhverjum sérstökum deilumálum. Auðvitað er hægt að fara þá leið að taka það sem samkomulag er um og geyma annað. Það er búið að gera það margoft.

Ef maður horfir á hvað raunhæft er í þessu efni þá er ekki raunhæft að reikna með því að hlutir leysist úr læðingi hvað þetta varðar fyrr en skömmu fyrir þingrof og kosningar. Mín ágiskun er sú að þingrof og kosningar verði héðan af ekki fyrr en árið 2011 en ég tók eftir því að hv. þingmaður sagði: Kosningar eða þingrof að öðru leyti, og það er tæknilega séð alveg hárrétt hjá honum.