135. löggjafarþing — 56. fundur,  30. jan. 2008.

landshlutabundin orkufyrirtæki.

301. mál
[15:30]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir fyrirspurn um landshlutabundin orkufyrirtæki. Þetta er ein af þremur fyrirspurnum sem ég lagði fyrir hæstv. iðnaðarráðherra skömmu fyrir jól. Hæstv. ráðherra náði að svara tveimur þeirra sem vörðuðu annars vegar fyrirtækið Landsnet og spurninguna um hvort ríkið væri tilbúið til að skoða þann kost að leysa eignarhlut sinn í Landsneti til sín í gegnum Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða í samstarfi við meðeigendur sem að óverulegum hlut eru, að stofna sjálfstætt óháð fyrirtæki um háspennta flutninga á raforku um landið.

Hin spurningin laut að uppbyggingu byggðalínu, mikilvægi þess að styrkja hana, auka flutningsgetu hennar og þar með afhendingaröryggi og miðlunarmöguleika í orkukerfinu.

Hæstv. ráðherra svaraði þessum spurningum báðum ágætlega í sjálfu sér og nú ber ég fram þá þriðju, en hún snýr að því hvort að til greina komi af hálfu ríkisvaldsins að beita í samstarfi við heimaaðila á viðkomandi svæðum hinu sama eignarhaldi sínu á Landsvirkjun sem ríkið á 100% sem og Rarik og Orkuveitu Vestfjarða til að leggja grunn að landshlutabundnum orkufyrirtækjum á vestanverðu og norðvestanverðu landinu.

Segja má að slík svæðisbundin orkubú eða fyrirtæki séu til staðar hér á suðvesturhorninu í formi Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja og á Vestfjörðum enn sem komið er þar sem ekki hefur enn orðið af því að sameina Orkubú Vestfjarða. Þau eru ekki til staðar á Vesturlandi, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi eða á austanverðu Suðurlandi. Það er bjargföst sannfæring mín að það sé til baga í sambandi við rekstur og uppbyggingu og þróun orkubúskapar í landinu. Miklum mun farsælla væri að til staðar væru öflug svæðisbundin orkufyrirtæki sem önnuðust dreifingu og smásölu orkunnar á viðkomandi svæðum og, eftir atvikum, framleiðslu í smærri virkjunum í þágu eigin sölu.

Ríkið er í aðstöðu til að stuðla að slíkri þróun og gera hana mögulega. Ég er sannfærður um að áhugi er á slíku, t.d. fyrir norðan þar sem allöflug orkufyrirtæki í eigu heimamanna eins og Norðurorka á Akureyri, orkufyrirtæki Húsvíkinga og jafnvel fleiri, gætu orðið aðilar að og þátttakendur í slíkri endurskipulagningu orkumála.

Fyrir því eru ýmis rök, byggðaleg, (Forseti hringir.) og eins hvað varðar afhendingaröryggi og hagkvæmni í rekstri. Ég er því spenntur að heyra svör hæstv. ráðherra.