135. löggjafarþing — 56. fundur,  30. jan. 2008.

landshlutabundin orkufyrirtæki.

301. mál
[15:43]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu afgreiðir það mál sem hv. þm. Mörður Árnason tók hér upp. Það er rétt hjá hæstv. iðnaðarráðherra að hugmyndin um svæðisbundin orkufyrirtæki er gömul. Það er líka hárrétt að það var mikið framfaraskref þegar byggðalínan var byggð upp og að sjálfsögðu er samtenging og hringtenging orkukerfisins algjörlega bráðnauðsynleg. Ég hef einmitt verið talsmaður þess að hún sé efld til að auka hagkvæmni, draga úr töpum og auka afhendingaröryggi.

Það hefur síðan ekkert með það að gera hvernig staðið er að orkuvinnslu og sölu á einstökum svæðum. Þar tel ég að ráðherrann sé á villigötum þegar hann ber fyrir sig samkeppnisrök til varnar óbreyttu ástandi. Það er nú meiri samkeppnin þegar búið er að slá saman Rarik, Landsvirkjun og Orkubúi Vestfjarða og takist það kannski ekki formlega séð, er það allt á hendi ríkisins. Síðan er það Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja.

Ég tala hér fyrir fyrirkomulagi sem gæti jafnvel þýtt fimm burðuga aðila í staðinn fyrir þrjá. Ef Orkubú Vestfjarða og svæðin um vestanvert og norðvestanvert landið mynduðu öflugt svæðisorkubú þar — og gjarnan mættu höfuðstöðvar þess vera á Ísafirði þannig að Vestfirðingar fengju sitt orkubú heim aftur. Síðan yrði öflugt sambærilegt fyrirtæki um norðan- og austanvert og jafnvel suðaustanvert landið. Það getur framkvæmt þann aðskilnað í starfsemi sinni sem nú þarf að vera á þáttunum miðað við evrópskar samkeppnisreglur. Það er ekkert því til fyrirstöðu. Þetta snýst líka um að forræði, störf og arður af þessari starfsemi verði til og falli til á svæðunum. Hitaveita Suðurnesja hefur verið aflvél í atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Menn bundu vonir við að Orkubú Vestfjarða gæti orðið svipað vestra þangað til að Vestfirðingar voru neyddir til að láta það af höndum sér.

Menn eiga líka að líta á það (Forseti hringir.) og framtíðarhagsmunina sem í þessum atvinnurekstri eru fólgnir, störfum og arði sem af starfseminni hljótast.