135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

skipun héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra.

[10:33]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að vekja máls á atriði sem reyndar hefur verið hér til umfjöllunar á nokkrum fundum fyrr og mundu kannski margir telja að verið væri að bera í bakkafullan lækinn. Engu að síður hefur ýmislegt nýtt komið fram í því máli og það varðar skipun dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra. Nýlega sendi Dómarafélag Íslands frá sér ályktun vegna þessa máls og er þar vakin athygli á því að unnið hafi verið að því á undanförnum árum að reyna að styrkja sjálfstæði dómsvaldsins sem einn þátt ríkisvaldsins og lögð á það áhersla að við mótun löggjafar um dómstóla verði að hafa í huga eftirlitshlutverk þeirra með hinum tveimur valdþáttum ríkisins.

Skemmst er frá því að segja að í ályktun Dómarafélags Íslands virðist mér að settur dómsmálaráðherra sé beinlínis rassskelltur fyrir embættisfærslu sína í þessu máli jafnvel þó að það sé gert með nokkuð penum hætti og penu orðalagi. Sagt er að sjálfstæði dómstóla sé stefnt í voða og vísað til þess að Evrópusamtök dómara hafi sett reglur um val á dómurum og í tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins til aðildarríkja um sjálfstæði, skilvirkni og hlutverk dómara komi sömu sjónarmið fram.

Mér sýnist að í embættisfærslu sinni hafi settur dómsmálaráðherra alls ekki fylgt þeim eðlilegu leikreglum sem á að viðhafa í máli af þessum toga, þ.e. að taka fullt tillit til þeirrar umsagnarnefndar sem skipuð er samkvæmt lögum enda þótt hann sé ekki bundinn af áliti hennar. Þá hefur dómsmálaráðherra einnig verið með fjálglegar yfirlýsingar um að hann hafi í raun verið betur í stakk búinn til að meta hæfi umsækjenda en umsagnarnefndin sem sérstaklega var skipuð til að fjalla um þetta mál. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvenær var Árni Mathiesen settur dómsmálaráðherra í þessu máli? (Forseti hringir.) Hvenær fékk settur dómsmálaráðherra málið til meðferðar? Hvaða gögn eru því til staðfestingar hversu langan tíma settur dómsmálaráðherra tók málið til skoðunar og meðferðar? Hvenær var umsækjendum (Forseti hringir.) sent álit nefndarinnar og hversu langan tíma fengu þeir til að bregðast við?