135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

skipun héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra.

[10:36]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að hann er vissulega að bera í bakkafullan lækinn. Hvernig getur þingmaðurinn ætlast til að ég hafi á takteinum einstakar dagsetningar í máli sem þessu? Það er auðvitað fáránleg spurning. Hann getur borið fram skriflega fyrirspurn til að afla sér nákvæmra upplýsinga um þessar dagsetningar en það gerðist upp úr miðjum desember að málið fór í hendur setts dómsmálaráðherra en dómnefndin hafði áður unnið sitt verk.

Tveir af umsækjendum hafa óskað álits umboðsmanns Alþingis. Það mál er í vinnslu. Forsætisráðuneytið hefur skilað umbeðnum gögnum í hendur umboðsmanns og hann mun síðan vinna sitt verk. Þetta er allt í eðlilegum farvegi.

Sú meinlega villa er hins vegar í málflutningi þingmannsins, sem hann virðist grundvalla á því að framkvæmdarvaldið á Íslandi skipar dómsvaldið, að með því fyrirkomulagi sé framkvæmdarvaldið að skipta sér af störfum dómara. Þetta er auðvitað alger reginmisskilningur. Aðskilnaður þessara tveggja greina ríkisvaldsins byggist á því að þær starfi sjálfstætt. Við höfum það kerfi hér, hvað sem hv. þingmaður segir og hvað sem okkur kann að finnast um það, að á endanum er það handhafi framkvæmdarvaldsins sem skipar dómarana. Það ber að gera eftir bestu samvisku og á grundvelli bestu fenginna upplýsinga en á endanum hlýtur mat ráðherrans að ráða. Matsnefndin skilaði áliti sínu, hún dæmdi fimm umsækjendur í þessu máli hæfa, þar af þrjá hæfari en aðra tvo. Eigi að síður er, eins og þingmaðurinn sagði sjálfur, ráðherrann óbundinn af niðurstöðu dómnefndarinnar en ég tel að hann hefði ekki getað skipað einstakling sem matsnefndin hefði talið óhæfan til starfans. Þar liggur munurinn, virðulegi þingmaður.