135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

skipun héraðsdómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra.

[10:38]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að vekja athygli á því að hægt er að leggja fram skriflega fyrirspurn í þessu máli. Sú vinsamlega ábending verður að sjálfsögðu tekin til skoðunar. Ég vil hins vegar vekja máls á því og vekja athygli á því að þó að ráðherrann sé ekki bundinn af þeirri niðurstöðu sem álitsnefndin kemst að þá eru völd hans takmörkuð — það var hugsunin þegar ákvæði um nefndina voru sett í lög að takmarka vald ráðherrans. Í áliti Dómarafélagsins er ekki síst verið að vekja athygli á því að sjálfstæði dómstólanna er stefnt í voða þegar ekki eru skipaðir dómarar sem taldir eru hæfastir, það dregur einfaldlega úr tiltrú almennings á dómstólum sem er mjög mikilvægt að hafa í heiðri.

Ég hlýt því að spyrja enn á ný: Sér hæstv. forsætisráðherra ekki að þau vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð eru til þess fallin að draga úr sjálfstæði dómstóla, eins og Dómarafélagið segir í yfirlýsingu sinni, og veikja þrískiptingu ríkisvaldsins?