135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

flug herflugvéla.

[10:49]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað alltaf áhyggjuefni ef flugvélar, hvort sem það eru herflugvélar eða aðrar flugvélar, fljúga of nærri öðrum þannig að hætta geti stafað af því og full ástæða til að skoða þau mál vel ef einhver tilvik eru uppi um slíkt.

Ég þekki ekki vel það tilvik sem hv. þingmaður nefnir hér en mun að sjálfsögðu skoða það í framhaldi af þessari fyrirspurn og kanna hvernig í því máli lá. En ég tel ekki tilefni til þess að draga einhverja samlíkingu á milli þeirra tilvika sem þarna er um að ræða og síðan æfingaflugs herflugvéla, danskra eða annarra, þegar þær eru á Íslandi til æfinga. Vegna þess að ég tel að einmitt þegar vélar eru hér til æfinga sé meira eftirlit og meira skipulag á hlutunum en er kannski í annan tíma. Ég get því ekki séð ástæðu til að draga samlíkingu þarna á milli.