135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

loðnuveiði og úthafsrækjuveiðar.

[10:52]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í dag er síðasti dagur janúarmánaðar og eftir því sem ég veit best eru lítil merki þess að vænta megi góðrar loðnuveiði. Því spyr ég hæstv. sjávarútvegsráðherra: Hvaða upplýsingar hafa honum borist um horfur, um rannsóknir á hitafari sjávar, er það t.d. afbrigðilegt, er svæðið undir hafís eða hvað er það sem takmarkar rannsóknir?

Tilefnið er auðvitað það að oft hefur verið hafin mjög góð loðnuveiði á þessum árstíma, en mér sýnist margt benda til þess að hér sé eitthvað sem við þurfum að huga sérstaklega að. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra þessara spurninga.

Einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra um úthafsrækjuveiðar: Hvers vegna tekur ráðherra það ekki upp að endurskoða kvótasetningu í úthafsrækju og gefa veiðarnar frjálsar til þess m.a. að auka sókn í þann vannýtta veiðistofn, sem jafnframt gæti þá aukið atvinnu við úrvinnslu á rækju?

Mér finnst það ekki verjandi, hæstv. forseti, að takmarka úthafsrækjuveiðar með atvinnutakmarkandi aðgerðum eins og kvótabinding rækjunnar er í dag. Ég tel það ekki þjóna almannahagsmunum og þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra að því hvað hann hyggist gera varðandi þann vannýtta stofn sem ekki hefur verið veiddur á undanförnum árum og ekki er lagalegur grundvöllur fyrir að vera með kvótabindingu á eins og nýting úthafnsrækjustofnsins er.