135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

loðnuveiði og úthafsrækjuveiðar.

[10:57]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Til viðbótar við leit Bjarna Sæmundssonar á loðnunni hafa veiðiskip tekið þátt í þessari leit og ástæðan er auðvitað sú að þessi upphafskvóti hefur verið veittur, þannig að hann er ekki hamlandi þáttur í málinu. Þessi leit hefur því miður ekki borið árangur. Það var dálítil veiði norður og norðaustur af landinu í vetur en ekki svo að nokkur kraftur væri í. Reglulegir samráðsfundir hafa verið haldnir með útvegsmönnum og Hafrannsóknastofnun um það hvernig best væri að standa að þessu og útvegsmenn hafa staðið fyrir því að stunda þessa leit, en hún hefur því miður ekki borið árangur enn þá. Við vonumst til að úr þessu rætist því að þarna er gríðarlega mikið í húfi, ekki bara fyrir loðnuútgerðina sjálfa eða vinnsluna heldur er hér um að ræða, eins og við vitum, mikilvægustu fæðutegund þorsksins. Allt sem við erum að tala um í þessu sambandi skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þjóðarbúið í heild.