135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

transfitusýrur í matvælum.

[11:00]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Við verkefnaflutning á milli ráðuneyta, sem tók gildi lögum samkvæmt 1. janúar sl., færðist matvælasvið Umhverfisstofnunar frá umhverfisráðuneyti til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Matvælamálin heyra því ekki lengur beinlínis undir umhverfisráðuneyti heldur eru þau á hendi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þeir starfsmenn umhverfisráðuneytis sem áður sinntu þessum stöfum starfa nú, sumir hverjir a.m.k., fyrir landbúnaðarráðuneytið og þá innan Landbúnaðarstofnunar.

Spurningin á því kannski betur heima hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hins vegar vil ég að gefnu tilefni taka undir með hv. fyrirspyrjanda um mikilvægi þess að athuga þessi mál og fara yfir transfitusýrustuðla og annað slíkt í matvælum hér á landi. Þau dæmi sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefnir um það hversu vel — þó að kannski megi ekki komast þannig að orði — Íslendingar standi sig í því, þ.e. að hér er mjög hátt hlutfall transfitusýra í matvælum, er vissulega eitthvað sem varðar heilbrigði og hollustuhætti og lýðheilsu ef út í það er farið, því þetta er ekki síður málefni er varðar lýðheilsu landsmanna. Ég tek undir með hv. þingmanni í því að þetta er eitthvað sem við þurfum að huga að.