135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[11:04]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Nú eru 14 ár og 30 dagar frá því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gekk í gildi og Ísland með menningarstofnanir sínar, atvinnufyrirtæki, banka, sveitarfélög, vísindarannsóknir, stjórnsýslu og löggjafarstarf sameinaðist innri markaði Evrópu.

Engin ein ákvörðun í síðari tíma sögu Alþingis hefur haft jafnrík og djúptæk áhrif á íslenskt samfélag og enginn andmælir því nú, virðulegi forseti, að EES-aðild var algerlega rétt ákvörðun Íslendinga. Hún þýddi opnun landsins, nýtt frelsi fólks til að flytjast milli landa, stofna fyrirtæki, færa fjármagn og eiga viðskipti með vörur og þjónustu. Hún gaf af sér stóreflda íslenska háskóla, kynnti til sögu hér á landi fyrstu réttarbætur á mörgum sviðum, t.d. í umhverfismálum og neytendamálum, og hún er hin raunveruleg forsenda þess að íslensk fyrirtæki gátu leyst gamlar og lúnar landfestar og sótt á heimsmarkað, jafnokar hvers sem er.

Við Íslendingar höfum margt að læra af 14 ára reynslu okkar á innri markaði Evrópu. Hugsum til þess núna hversu margir töldu árið 1993 að EES-aðild stefndi þjóðerni og sjálfstæði í bráða hættu og drögum þann lærdóm sem augljós er af sögu síðasta eins og hálfa áratugar, þann lærdóm að það styrkir Ísland verulega að taka þátt í innri markaði Evrópu.

Ég hef sagt það hreinskilnislega að vera mín í utanríkismálanefnd Alþingis í aðdraganda EES-samningsins og hin gríðarlega harða umræða sem þá fór fram í þinginu og samfélaginu öllu sé besti skóli sem ég hafi gengið í gegnum. Ég kom að málinu andstæð EES-samningnum en sannfærðist eftir að hafa kynnt mér málin í þaula að samningurinn væri mikilvægt gæfuspor fyrir íslenskt samfélag. Íslensk stjórnmálaumræða verður aldrei söm vegna þess að við bárum gæfu til að taka stökkið inn í EES. Áratugum saman hafði það verið viðurkennt stefnumið sem náði að skera á flokkslínur að Ísland ætti beinlínis að halda sig frá ábyrgð á alþjóðavettvangi vegna meintrar sérstöðu. Sá skilningur var útbreiddur að með einangrun væri sjálfstæðið tryggt. Bjartur í Sumarhúsum var aldrei bara skáldsagnapersóna. Þessi tími er liðinn í íslenskum stjórnmálum og kemur aldrei aftur þótt einstaka menn með fortíðarþrá kunni enn að streitast á móti.

Þátttakan á innri markaði Evrópu hefur styrkt Ísland á ótal sviðum og það er rétt og eðlilegt að nálgast verkefni okkar á Evópuvettvangi sem eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands þar sem ríði á að sýna árvekni og meta allar stöður rétt.

Samrunaferlið í Evrópu hefur bráðum staðið í 60 ár. Við Íslendingar tókum stökk inn í það fyrir 14 árum. Mikilvægustu þættir þess hafa jafnmikil og nákvæmlega sömu áhrif á starfsskilyrði fyrirtækja á Íslandi eins og þeir hafa á fyrirtæki í Slóveníu, á Írlandi, í Svíþjóð og Portúgal. Hvort sem Ísland er innan eða utan Evrópusambandsins erum við á innri markaðnum með sínum samræmdu reglum.

Margir hafa orðið til þess að harma á liðnum árum áhrifaleysi Alþingis sem einhvers konar stimpilstofnunar EES-gerða. Í því felst vanmat á möguleikum íslenskrar stjórnsýslu og alþingismanna til að hafa áhrif og til að nýta sér val sem löggjöf Evrópusambandsins oftar en ekki gefur aðildarríkjum innri markaðarins við útfærslu EES-efnisreglna í innlendri lagasetningu. Hins vegar er einnig nauðsynleg forsenda skynsamlegrar umræðu að allir geri sér fullkomlega ljóst að með því að kjósa EES-aðild kýs Alþingi að halda Evrópusamstarfi á stjórnsýslustigi en kýs ekki þátttöku í pólitísku samstarfi Evrópuþjóða. Kjarni munarins á EES og Evrópusambandinu er sá að EES-samstarf er í eðli sínu stjórnsýsluferli, stjórnsýsluferli sem þó bindur Alþingi Íslendinga til lagasetningar á mörgum sviðum þjóðlífsins.

Á samráðsfundi sem utanríkisráðuneytið hélt fyrir nokkrum árum með fulltrúum íslensks atvinnulífs var það meginniðurstaðan að Íslendingar ættu að haga rekstri hagsmunamála sinna eins og við værum aðilar að ESB. Í niðurstöðum Evrópunefndar frá apríl 2007 er bent á fjölmargar leiðir til að styrkja starf Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu og innan EES með það fyrir augum að hagsmuna íslensks almennings og íslenskra fyrirtækja verði betur gætt. Alþingi gegnir þar mikilvægu hlutverki, virðulegi forseti.

Í dag á ég sem utanríkisráðherra frumkvæði að þeirri nýbreytni að hv. þingmenn ræði sérstaklega á almennum þingfundi helstu málefni innri markaðar Evrópu og aðra þætti Evrópusamstarfs sem Ísland tekur þátt í. Til grundvallar er lögð skýrsla sem viðskiptasvið utanríkisráðuneytisins og sendiráð Íslands í Brussel hafa gert þar sem lýst er stöðu og efnisinnihaldi stefnu og löggjafar sem nú eru til meðferðar innan ESB og EES en munu á næstu missirum koma til afgreiðslu hv. þingmanna á Alþingi.

Regluverk innri markaðarins hefur víðtæk áhrif hér á landi. Ísland hefur ekki sömu tækifæri til áhrifa á þær reglur og aðildarríki ESB en formleg aðkoma íslenskra stjórnvalda að EES-málum takmarkast við fyrstu stig tillagna frá framkvæmdastjórn ESB. Reynslan hefur sýnt að unnt er að hafa áhrif á þróun mála innan sambandsins á þessu stigi þegar rétt er á málum haldið nógu snemma. Prýðilegt dæmi um þetta er stefnumótun ESB um málefni hafsins sem Ísland tók virkan þátt í og hafði umtalsverð áhrif á.

Nú liggur fyrir að til að rétta af lýðræðishallann innan ESB og auka áhrif þjóðkjörinna fulltrúa, sem er í sjálfu sér jákvætt, verður hlutverk Evrópuþingsins aukið. Þetta getur hins vegar takmarkað möguleika EES-ríkja til þeirrar afkomu og áhrifa sem ég var að lýsa. Alþingi ætti því að efla til muna samstarf við Evrópuþingið og láta það ná til fleiri þingnefnda en utanríkismálanefndar og EES-þingmannanefndarinnar. Fagnefndir Alþingis eiga ríkt erindi við þingnefndir í Evrópuþinginu meðan þær sinna mótun löggjafar innri markaðarins og þar með efni væntanlegra íslenskra laga.

Fram til þessa hefur Alþingi komið of seint að umræðunni um hver afstaða Íslands innan EES-kerfisins eigi að vera, hvernig forgangsraða eigi hagsmunamálum hjá sendiráðinu í Brussel og meðhöndlun ráðuneyta á ESB-reglugerðum eða -tilskipunum sem gefa aðildarríkjum svigrúm til að velja útfærslu í landsrétti. Umræðan í dag og skýrslan til Alþingis er liður í því að rétta þessa skekkju í löggjafarstarfi. Alþingi hefur ekki fylgt eftir eigin reglum um þinglega meðferð EES-gerða frá 1994. Þarna þarf úrbætur auk þess sem hlutverk utanríkismálanefndar ber að efla um leið og ástæða er til að skoða hvort stofna eigi sérstaka Evrópunefnd hér í þinginu.

Mun ég nú víkja að nokkrum helstu málefnum sem reifuð eru í skýrslunni og eru áherslumál Íslands á Evrópuvettvangi.

Á leiðtogafundi Evrópusambandsins í Lissabon 17. desember sl. var heildstæð stefna Evrópusambandsins í málefnum hafsins staðfest. Nær hún til umhverfismála, nýtingu auðlinda, siglingamála, ferðamála við ströndina, hafnamála, byggðamála strandbyggða, varna gegn vá og ólögmætum aðgerðum á hafi, vöktun siglinga og lífríkis, rannsókna og þróunar og uppbygginga upplýsingakerfa. Má af þessu sjá að stefnan er víðtækari en áður hefur þekkst og gengur þvert á hefðbundna verkaskiptingu ráðuneyta í flestum löndum. Íslendingar ákváðu snemma að beita sér eins mikið í stefnumótunarferlinu og ESB gaf kost á en staðreyndin er sú að slík ferli eru oftast nær opin Íslandi til jafns við aðildarríki en Ísland hefur sjaldnast nýtt það.

Sendiráð okkar í Brussel fylgdist grannt með frá upphafi þegar ESB gaf út grænbók um málefni hafsins árið 2005 og sendi hana til umsagnar 40 hagsmunaaðila hér á landi, allra verkalýðsfélaga sem tengjast störfum á hafinu, útvegsmanna, rannsóknastofnana, náttúruverndarsamtaka, menningarstofnana og fleiri.

Utanríkisráðuneytið setti upp vinnuhóp með aðild allra fagráðuneyta sem málefnið snerti og Sambands sveitarfélaga. Er skemmst frá því að segja að ýmsar áherslur Íslendinga í athugasemdum skiluðu sér inn í stefnuna sem staðfest var í desember, eins og nánar er lýst í skýrslunni. Ísland hefur sótt ráðherraráðstefnu um málið og forseti framkvæmdastjórnar ESB, José Manuel Barroso, þakkaði þar sérstaklega framlag Íslands en talsmenn ESB hafa ítrekað lýst yfir að vegna sérfræðiþekkingar Íslendinga á málefnum hafsins sé framlag okkar til málaflokksins mikils metið. Í heimsókn minni til framkvæmdastjórnar ESB í Brussel í haust var einnig óskað eftir því að íslenskur sérfræðingur á sviði sjávarútvegs kæmi þangað til starfa.

Evrópusambandið hefur sett sér tölusett markmið um minnkun gróðurhúsalofttegunda og hafði lykiláhrif á samningafundi Sameinuðu þjóðanna á Balí í desember. Evrópusambandið er orðið forustuafl í umhverfismálum í heiminum nú um stundir um viðbrögð við loftslagsvánni.

Í lok ársins má ætla að ný löggjöf sem miðar að því að skylda sveitarfélög, fyrirtæki og almenning til að endurvinna úrgang verði afgreidd. Viðskiptakerfi með gróðurhúsalofttegundir er í mótun á grundvelli tilskipunar frá 2003 sem hefur verið tekin inn í EES-samninginn eins og rætt var um á Alþingi síðastliðið haust. Í nóvember varð ljóst að gildissvið þessa regluverks mundi ná til flugstarfsemi. Leggur Ísland nú áherslu á að færa rök fyrir sérstæðri nauðsyn samgangna í lofti fyrir íslenskt samfélag svo reglurnar verði ekki of íþyngjandi fyrir íslenska flugstarfsemi eins og nánar er rakið í skýrslunni. Rétt er að nefna að vænta má þess að viðskiptakerfið nái til siglinga innan fárra ára sem og til áliðnaðar.

Fyrsta heildstæða orkustefna ESB var afgreidd á leiðtogafundi í mars á síðasta ári. Þá voru í september kynntar tillögur um afnám hafta í orkusölu sem ná munu til Íslands og fela í sér samræmdar reglur um innri markað með raforku. Framkvæmdastjórnin telur ljóst að núverandi reglur um aðskilið eignarhald á orkumarkaði hafi ekki skilað árangri og samþjöppun væri mikil. Komst Eftirlitsstofnun EFTA að sams konar niðurstöðu um EES-ríkin, en tiltók þó að of snemmt væri að dæma um áhrifin á Íslandi.

Tilskipun sem felur í sér að póstþjónusta verði gefin frjáls hefur verið umdeild innan ESB en verður líklega samþykkt á næstu mánuðum með gildistöku árið 2010. Innleiðing hér á landi mundi þýða að Íslandspóstur hf. missi einkarétt til póstþjónustu.

Breytingar hafa orðið á samningnum um niðurfellingu tolla á landbúnaðarafurðir, þannig að Ísland fær stærri kvóta fyrir lambakjöt til ESB og nýjan kvóta fyrir smjör, skyr og pylsur en ESB á móti kvóta fyrir nautgripi, svínakjöt, kjúklinga, rjúpur, pylsur, sérupprunamerktar afurðir, osta og kartöflur.

Íslendingum býðst að gerast aðilar að tímamótasamningi ESB við Bandaríkin um loftferðir þar sem opnað er fyrir jafnt aðgengi allra flugfélaga að áætlunarflugi til Bandaríkjanna.

Ný kynslóð samstarfsáætlana um vísindi, menningu og félagsmál hóf göngu sína á síðasta ári en Ísland hefur frá upphafi fengið miklu meira fé inn í verkefni hér á landi en við höfum lagt fram. Sjö þúsund manns komu að slíkum ESB-verkefnum á Íslandi árið 2006, 4.700 nemendur í grunnskólum og framhaldsskólum og ríflega þúsund erlendir nemendur komu gagngert til námsdvalar á Íslandi. Tvö hundruð verkefni voru unnin undir íslenskri stjórn.

Líkur eru á að eftir margra ára deilur um þjónustutilskipun ESB verði bætt við regluverk ESB sérstakri tilskipun um almannaþjónustu. Þjónustutilskipunin sjálf er til meðferðar á vettvangi EFTA þar sem EES/EFTA-ríkin ráðgast um hvernig tilskipunin verði tekin upp í samninginn. Vinnuhópur ráðuneyta hefur verið settur upp hér á landi vegna þessa og var tilskipunin send 20 hagsmunaaðilum og óskað athugasemda vegna væntanlegrar innleiðingar. Er unnið úr þeim athugasemdum sem bárust. Ísland mun fylgjast af sérstökum áhuga með umræðum um skilgreiningar almannaþjónustu í ESB-löggjöf sem nú eru hafnar.

Rekstur EES-samningsins hefur gengið vel en til þess þarf góðan samstarfsvilja allra aðila. Aðstæður verða hins vegar erfiðari eftir því sem Evrópusambandið tekur skipulagsbreytingum, hlutverk Evrópuþingsins eykst og framkvæmdastjórnin breytist án þess að hægt sé að breyta stofnanakerfi EES/EFTA-stoðarinnar jafnhliða. Við megum ekki loka augunum fyrir þessu heldur verðum við að bregðast við jafnharðan eftir því sem hægt er.

Virðulegi forseti. Ég hef áður úr þessum ræðustól bent á að skilin milli alþjóðamála og innanlandsmála séu að hverfa í stjórnmálum. Aðild Íslands að innri markaði Evrópu felur í sér að skilin eru horfin á sviðum fjármagnsflutninga, vöru- og þjónustuviðskipta, fólksflutninga, félaga- og hugverkaréttar, samkeppnismála, matvælamála, samgangna, orku- og umhverfismála, neytendamála, vísinda, rannsókna, menntunar og menningar svo nokkuð sé nefnt. Á þessum sviðum deilum við valdi til stefnumótunar og reglusetningar með öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Og lokum ekki augunum fyrir því að þetta er bróðurparturinn af starfsemi Evrópusambandsins. EES-samningurinn er hins vegar alþjóðasamstarf á stjórnsýslustigi eins og fyrr sagði og að upplagi þiggjandi gagnvart ESB á þessum sviðum. Í Schengen-samstarfinu tekur Ísland hins vegar fullan þátt einnig í pólitíska þættinum.

Í stjórnarsáttmálanum er áhersla lögð á að staða Íslands í Evrópusamstarfinu sé á dagskrá með virkum hætti og að umræða sé mikilvæg fyrir hagsmuni landsins. Stjórnarsáttmálinn mælir fyrir um að komið verði á fót sérstakri nefnd, eins konar vaktstöð, til þess að fylgjast með þróun mála í Evrópu og leggja mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga. Nefndin mun taka til starfa á næstu dögum og munu tveir alþingismenn stýra starfi nefndarinnar með sameiginlegri formennsku, þeir Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, og Illugi Gunnarsson, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Þess hefur verið óskað bréflega að allir stjórnmálaflokkar skipi fulltrúa í nefndina auk samtaka atvinnurekenda og launþega.

Þá hef ég sett á fót eina nefnd og er í þann veginn að skipa aðra sem skipaðar eru embættismönnum og hagsmunaaðilum til að fjalla um landbúnaðarstefnu og sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Ég tel mikilvægt að við fylgjumst ávallt grannt með þróun stefnumiða sambandsins á þessum sviðum til þess að vera sem best búin undir breytingar sem hér kunna að verða.

Það fer ekki fram hjá nokkrum manni að mörgum í íslensku atvinnulífi þykir íslensku krónunni sniðinn of þröngur stakkur. Ég hef haldið því fram lengi að krónan stefndi í að vera viðskiptahindrun og að smæð gjaldmiðilsins kostaði almenning á Íslandi meira en hægt væri að una við. Aðstæður knýja á um að allir stjórnmálaflokkar og forusta atvinnulífs og launþegahreyfingar hreinsi borðið, leiti fyrst sameiginlegs skilnings á aðstæðum og svo nýrra lausna sem styrkti Ísland til framtíðar.

Ég er sammála bæði forsætisráðherra og formanni bankastjórnar Seðlabankans um að einhliða upptaka evru að hætti Svartfellinga sé útilokuð fyrir Ísland. Mín skoðun er að evra verði ekki tekin upp án aðildar að myntbandalaginu í heild. Ríkisstjórnin er ávallt reiðubúin í samræðuna um þessi mál. Ég hvet samtök atvinnurekenda, samtök launafólks og aðra þá sem vilja leggja gott til til að taka upp ný vinnubrögð og benda á ábyrgar og færar leiðir til lausna. Sérstaklega þurfum við að vara okkur á því að fara ekki að næra gömlu hugmyndina um að sérstaða okkar losi okkur undan skyldum sem aðrar þjóðir þurfa að taka á sig. Lýðræðisleg samræða um leiðir Íslands til framtíðar er verkefni okkar allra og ekki einkamál stjórnmálamanna eða -flokka því ljóst er að ákvörðun um nýja stöðu Íslands í Evrópusamstarfi verður tekin í þjóðaratkvæðagreiðslu. Án samþykkis kjósenda fer enginn lönd né strönd.

Almenningur á rétt á málefnalegum umræðum, greiðum og réttum upplýsingum og heiðarlegu mati á hagsmunum lands og þjóðar. Fyrir 14 árum og 30 dögum tóku Íslendingar stökkið inn á sameiginlegan innri markað Evrópu. Þau sem þá óttuðust mest ásælni útlendinga, t.d. að hingað mundu flykkjast þúsundir frá, eins og það var kallað, fátæku ríkjunum Írlandi og Finnlandi eða að útlendingar mundu kaupa upp allar jarðir á Íslandi höfðu, þegar á reyndi, ekkert að óttast. Og sagan kennir meira að segja að Ísland, Írland og Finnland hafa öll blómstrað á innri markaði Evrópu, án ásælni og með gagnkvæmum ávinningi.

Virðulegi forseti. Innri markaður Evrópu og samræmdar reglur hans eru hversdagslegur íslenskur veruleiki fólks og fyrirtækja í dag. Stofnanauppbygging hans, ný stefnumótun og löggjöf hefur ýmsa galla og marga kosti eins og allur annar íslenskur veruleiki. Það var löngu tímabært að ýmsar hliðar framkvæmdarinnar yrðu ræddar sérstaklega á þingfundi eins og við nú gerum. Verkefni okkar, ríkisstjórnarinnar, hv. alþingismanna og Íslendinga allra, er að halda áfram vegferðinni í Evrópusamrunanum styrkum og markvissum skrefum en heltast hvorki úr lestinni né hlaupa hraðar en við getum.